Milli mála - 2022, Síða 95
MILLI MÁLA
94 Milli mála 14/2/2022
ungum presti, Þorvarði Jónssyni (Tóta), sögu sína. Hans hlutverk var
að veita Agnesi sálgæslu og undirbúa hana andlega undir dauðann;
hér velur hann þá leið að veita Agnesi „hinstu áheyrn að sögu hennar
einstæðingsævi“.38 Þessi samskipti eiga sér stað á bænum Kornsá í
Vatnsdal þar sem Agnes var fangi síðustu sjö mánuði ævi sinnar.
Agnes segir Tóta ekki allan sannleikann en trúir Margréti hús-
freyju fyrir því sem raunverulega gerðist á Illugastöðum undir lok
sögunnar. Prestinum segir hún sögu sína í þröngu rými baðstofunnar
þar sem fjölskyldan á Kornsá heyrir til þeirra. Þannig dregst fjöl-
skyldan smám saman inn í frásögn hennar og þau fýsir öll að fræðast
um hvað gerðist og hvers vegna hina örlagaríku nótt á Illugastöðum.
Vera Agnesar á Kornsá hefur því meiri áhrif á fjölskylduna en ella:
þau sogast inn í frásögnina og byrja að hafa samúð með manneskju
sem þau fyrirlitu áður. Að lokum áttar fjölskyldan á Kornsá sig á því
að Agnes er „hvorki iðrunarfull né nornin sem [þau] höfðu ímyndað
sér, en öllu heldur óhrjáleg og hlédræg manneskja sem er þó með
sterkan persónuleika“, eins og Taylor túlkar þá mynd sem dregin er
upp í bók Kent.39
Staðalímyndin af hinni illu og blóðþyrstu Agnesi er þannig af-
byggð innan frásagnarheims skáldsögunnar og utan hans – þ.e. per-
sónurnar innan sögunnar og lesandinn utan hennar öðlast nýjan og
fyllri skilning á Agnesi og sögu hennar. Allt kemur þetta heim og
saman við áform Kent um að koma á framfæri margræðari lýsingu á
Agnesi, og undirstrikar mikilvægi endurskoðunarhyggjunnar í með-
förum hennar á sögunni. Um leið er Agnes líka gerð að miðpunkti
sögunnar af morðunum í stað Natans, sem hefur iðulega hlotið meiri
athygli eins og Nicholas Birns og Kent benda á.40 Sjónarhorn annarra
og skoðanir á Agnesi birtast í stuttum köflum þar sem athyglinni
er beint að öðrum sögupersónum, einkum konunum á Kornsá, og
dýpkar það myndina sem er dregin upp. Að lokum eru fléttaðar inn í
frásögnina hugsanir Agnesar í formi vitundarflæðis um atburði, fjar-
læga eða nálæga í tíma. Agnes opinberar því ekki öll smáatriði sögu
sinnar eða samskipti sín við Natan fyrir hlustendum sínum á bæn-
38 Kent, Náðarstund, 178. Allar frekari tilvísanir í þessa heimild eru birtar sem blaðsíðutal innan
sviga.
39 Taylor, „Burial Rites by Hannah Kent, review“.
40 Birns, Contemporary Australian Literature“, 218–219; Friðrika Benónýsdóttir, „Myrkt ástarljóð til
Íslands“.
„TILLAGA AÐ LÍFI“ : UM ÖRLÖGIN Í NORÐRINU OG ENDURSKÖPUN AGNESAR Í
NÁÐARSTUND EFTIR HÖNNUH KENT
10.33112/millimala.14.1.5