Milli mála - 2022, Síða 129
MILLI MÁLA
128 Milli mála 14/2/2022
eins konar hulu sem skilur á milli lesanda (og að einhverju leyti
sögumanns) og persónu Macabéu. Hann segir markmið skáld-
sögunnar að komast að kjarna Macabéu, að nekt hennar, í skáldsögu
sem virðist streitast á móti því: „Því skáldsagan virðist halda því
fram, aftur og aftur, að beinn aðgangur að Macabéu sé ómögulegur;
hún heldur staðfast fram eins konar ósýnileika, eða kannski raddleysi,
sem hæfir Macabéu, jafnvel í sjálfri frásögninni sem gefur sig út fyrir
að segja sögu hennar.“30 Þessi ósýnileiki, þessi spegill, þessi þögla
ljósmynd er forvitnileg og ákaflega áhrifarík í þeirri sviðsetningu
kvenpersónunnar og margslungnum leik að sjónarhorni sem á sér
stað í Stund stjörnunnar.
Sýningarsalur, svið og áhorf
En sýn veltur á sjónarhorni og sjónarhorn Stundar stjörnunnar, eða öllu
heldur hinnar innri skáldsögu verksins, er um margt bundið hinu
fallíska augnaráði sem kjarnast í því að karlar hafi ávallt „skilgreint
konur með augnaráðinu og markað þeim stað með glápi. Þannig séu
þær speglun af ímyndun þeirra, eftirlíkingar af konum í stað þess að
vera þær sjálfar, líkamar án sjálfsvitundar. Með augnaráðinu leggja
karlarnir þær undir sig og gera að kynferðislegum viðföngum“.31
Samkvæmt Helgu Kress má líta á sviðsetningu kvenna á sjálfum sér
sem viðbragð við glápinu og þá sérstaklega vegna þess að það útilokar
þær frá tungumálinu. „Vegna þess að þær hafa hvorki aðgang að því,
eru með í því né á þær hlustað verða þær að sýna sig.“32 Þrátt fyrir
að eiga sér þann draum að verða að skínandi stjörnu, sýnir Macabéa
sig raunar ekki heldur er hún fremur sýnd og sett á svið. Hér er við
hæfi að leggja áherslu á upphaf sköpunar, eða þá „ást“ við fyrstu sýn
sem fjallað hefur verið um, en sú „sem birtist sem aðalsöguhetjan er
kona sem er svo smá, svo vesæl, svo mjó að hún kæmi ekki að nokkru
einasta gagni ef hana hefði ekki borið fyrir augu höfundar Stundar
stjörnunnar“, segir Hélène Cixous en bætir síðan við að það sé rangt
þar sem hún varð ekki undirlögð. „Kannski var það hún sem fann
upp á höfundinum.“33
30 Stockwell, „Lispector, the Time of the Veil“, 247–248.
31 Helga Kress, „Dæmd til að hrekjast“, 71.
32 Sama heimild, 71.
33 Cixous, 145.
LAUMAST ÚT UM BAKDYRNAR
10.33112/millimala.14.1.6