Milli mála - 2022, Page 133
MILLI MÁLA
132 Milli mála 14/2/2022
sér í lagi skapara síns: „Tilvist hennar er rýr. Já. En af hverju ætti
ég að vera með samviskubit? Og reyna að losa mig við þá byrði að
hafa í reynd ekkert gert til að hjálpa stúlkunni?“ (15). En hvað með
lesandann? Gerir hann nokkuð til að hjálpa stúlkunni? Hann getur
það varla en textinn knýr hann samt sem áður til að velta því fyrir
sér, bregður spegli fyrir hann og spyr hann áleitinnar spurningar
um hans eigin þátt í sköpun þessa verks, þessarar persónu, þessa
(sögu)heims. Marta Peixoto veltir þessu fyrir sér í riti sínu Passionate
Fictions. Gender, Narrative, and Violence in Clarice Lispector (1994): „Að
lesa fórnarlambið, eins og að skrifa fórnarlambið, felur í sér táknræna
þátttöku í áþján lífs hennar. Sú þátttaka er tvöfalt óþægileg, tvöfalt
tortryggileg, í hlutverkinu sem textinn ætlar lesandanum: samkennd
sígur í þjáningu og aftenging í beitingu illvilja valds.“41
Lesandinn er ekki alltaf saklaus vegfarandi, sjónarvottur. Hann á
virkan þátt í merkingarsköpun textans og í því ljósi skapar hann per-
sónu Macabéu með Rodrigo S.M., og sjálfan sig líka, í samvinnu og
samlífi við skáldverkið sjálft. En í tilfelli Stundar stjörnunnar er jafnvel
um enn flóknara ferli að ræða þar sem gera má ráð fyrir tvöföldum
innbyggðum lesanda, og tala má um „innra“ samband söguþega og
Rodrigos og „ytra“ samband lesanda og söguhöfundar. Formgerð
frásagnarinnar er slík að hinn eiginlegi lesandi verksins tvístrast á
vissan hátt og þarf jafnvel að leika tveimur skjöldum. Annars vegar
er það söguþegi skáldsögunnar innan skáldsögunnar, og hins vegar
er það innbyggði lesandinn sem söguhöfundur ögrar og hvetur til
mjög gagnrýnnar afstöðu. Þetta er afar margbrotið ferli og veltur
vitaskuld á þeirri stöðu sem lesandi tekur sér þegar honum er kastað
inn í söguheiminn:
„Gefum okkur (þrátt fyrir allt) að þegar skáldverk er lesið af nautn
eigi sér stað einskonar ástarævintýri. Það sem gerist í ástarævintýri
er að maður tekur ýmiskonar áhættu og maður veit ekki betur en
maður skapi sérheim með Öðrum.“42 Þegar við stígum inn í skáldsögu
þá göngum við inn í ákveðið samband, lesandinn lofar sjálfum sér í
verkið, stendur með því í blíðu og stríðu þar til yfir lýkur. „Maður
byrjar að hrærast í einhverju fersku elementi sem virðist bjóða uppá
ótal möguleika. Og maður er alls ekki eins fastheldinn á sjálfsmynd
41 Peixoto, 97.
42 Ástráður Eysteinsson, „Hefur maður ást á skáldskap?“, 455.
LAUMAST ÚT UM BAKDYRNAR
10.33112/millimala.14.1.6