Milli mála - 2022, Síða 138
MILLI MÁLA
Milli mála 14/1/2022 137
hennar svo fullkomlega og kemur jafnvel aftan að lesandanum sem
hrifist hefur með. Hann veit frá upphafi að harmleiknum getur ekki
lokið nema á einn veg. Marta Peixoto bendir á að í verkum Lispector
krefjist frásögnin fórnarlambs, rétt eins og fórnarlambið krefst
frásagnar.48 Hér má hafa í huga tilurð sögupersónunnar Macabéu,
stúlku sem Rodrigo S.M. sér úti á götu, stúlku með brostin augu,
stúlku sem krefst þess af honum að skrifa sig. Höfundur Macabéu
fer ekkert í felur með það. Hann er í sömu sporum og lesandinn.
Báðir þykjast þeir eða ímynda sér í það minnsta að þeir ætli að gera
allt hvað þeir geta til að afstýra óumflýjanlegum dauðdaga Macabéu,
en báðir þrá þeir einnig að sjá hann verða að veruleika. Þessi þrá
getur orðið lostafengin og dauðinn orðið að kynferðislegri útrás. En
skömmu fyrir (spá)dóm Macabéu segir höfundur hennar:
Ég hugsa um sköp Macabéu, mállaus en svo óvænt þakin þykkum og
ríkulegum svörtum hárum – sköp hennar voru eini áþreifanlegi votturinn
um að hún væri á lífi.
Hún bað ekki um neitt en sköp hennar gerðu sínar kröfur, líkt og sólblóm
sem fæðist í gröf. (61)
Macabéa er hrein mey, bæði höfundur hennar og kærasti taka það
sérstaklega fram og er það nokkuð veigamikið stef í frásögninni. Hér
hugsar höfundurinn beinlínis um sköp sköpunarverksins, sem eru,
öfugt við höfuð hennar, þakin ríkulegum hárum, og færir þau fyrir
augu lesandans. Kynfæri hennar eru „mállaus“, rétt eins og hún sjálf,
og það kynferðislega málleysi skírskotar jafnframt til kynbundins
valds yfir tungumálinu. Rodrigo hefur þegar látið í ljós að persóna
hans sé hrein mey og sköp hennar séu enn fremur ófær um að skapa
líf; „eggjastokkar Macabéu voru skrælnaðir sem soðinn sveppur“ (50).
En þrátt fyrir „málleysið“ krefjast sköp Macabéu einhvers sem hún
kann ekki skil á né getur fært í orð. Eini votturinn um að hún sé
í raun og veru á lífi birtist í dráttum skapara hennar sem líkamleg
löngun, kynhvöt, náttúrulegur frumkraftur sem Rodrigo dregur
fram sem frjósemistákn innan dauðatákns. Ást, kynhvöt og losti
48 Peixoto, 82.
ARNÓR INGI HJARTARSON