Milli mála - 2022, Side 139
MILLI MÁLA
138 Milli mála 14/2/2022
renna saman við dauðaþrá, í raun bæði hjá skaparanum og sköpunar-
verkinu: „Ætti ég að segja að hún var vitlaus í hermenn? Jæja, hún
var það allavega. Í hvert sinn sem hún kom auga á einn slíkan þá
velti hún fyrir sér, þannig að ánægjan hríslaðist um hana: mun hann
drepa mig?“ (27). Þetta birtist einnig í áðurnefndri ást Macabéu á
hrollvekjum og söngleikjum, en henni „líkaði sérstaklega vel þegar
konur voru hengdar eða skotnar í hjartað“ (49). Hér er gott að hafa
í huga hversu hæglega má skipta sögumanninum út fyrir söguper-
sónu, skapara fyrir sköpunarverk, eins og hann sjálfur minnist á. Það
er hann sjálfur sem ruglar þessum hvötum saman innra með henni,
hann deilir þeim mögulega með henni og lesandanum líka. Skapar
hann ekki þessa sögupersónu sem er jafn lifandi og hann sjálfur, líkt
og guð almáttugur skapaði manneskjuna í eigin mynd?
Meyjarhaftið fær á sig aðra og aukna merkingu í þessu samhengi
sem ákveðinn fjötur (alltént gegnum augnaráð sögumanns) þar sem
Macabéa er hrein mey og enn fremur ófær um að skapa líf, sköp
hennar eru hljóð líkt og sólblóm sem fæðist í gröf. Hér bráðna saman
kynlíf og dauði, sköpun og endalok eru felld í eina mynd sem geymir
dauðadóm persónunnar. Dauða sem ber að nærri því um leið og hún
stígur út frá skapanorninni sem hefur gefið henni þrá, von og líf.
Dauðaþráin birtist einnig í eina drauminum sem Macabéu sjálfri
tekst að færa í orð: „– Veistu hvað mig langar mest af öllu í heim-
inum? Að vera kvikmyndastjarna. Ég fer bara í bíó á útborgunardegi.
Ég vil heldur fara í lítil kvikmyndahús, það er ódýrara. Ég elska
kvikmyndastjörnur. Vissir þú að Marylin var alveg bleik?“ (45).49 Í
draumi Macabéu um að verða kvikmyndastjarna má á vissan hátt
greina kjarna dauðaþrárinnar. En Marilyn Monroe er hálfgerður
holdgervingur hins fallíska augnaráðs, sviðsetningar og sköpunar
konunnar, eftirmynd og fyrirmynd í senn. Hún er eitt þekktasta
kyntákn kvikmyndasögunnar og ein allra skærasta stjarnan, ekki
49 Það er forvitnilegt að Lispector, eða kannski er það Rodrigo, skuli stafsetja nafn Marilyn Monroe
sem Marylin og draga þannig fram Maríunafnið – hina heilögu jómfrú og móður. Enn forvitnilegra
er að fyrri þýðandi verksins á ensku, Giovanni Pontiero, virðist hafa túlkað það sem innsláttarvillu,
altént leiðréttir hann nafn leikkonunnar, meðan Benjamin Moser, sem fylgir frumtextanum enn
nánar eftir, kýs að halda „rangri“ stafsetningu. Auðvitað hlýtur maður að velta fyrir sér hvaða
skilning skuli leggja í þessa stafsetningu, hvort þetta sé í raun villa sem sloppið hafi hjá prófarka-
lestri eða viljaverk. En viljaverk hvers? Er þetta til marks um framburð Macabéu eða hennar eigin
tilhneigingu til rangrar stafsetningar í starfi sínu sem ritari? En hún skrifar þó ekki verkið. Er það
þá til marks um að Rodrigo sé mögulega jafn(ó)vígur á lyklaborðið og persóna sín?
LAUMAST ÚT UM BAKDYRNAR
10.33112/millimala.14.1.6