Náttúrufræðingurinn - 2023, Blaðsíða 29
en brátt tóku Íslendingar sjálfir við kefl-
inu, ekki hvað síst læknarnir Jón Hjalta-
lín, Jón Finsen og Jónas Jónassen.
Byggðu þeir á góðum ráðum frá Harald
Krabbe.18 Upplýsingar og fræðsla til al-
mennings var eitt af aðalatriðunum í
baráttunni. Þannig lét þáverandi land-
læknir, Jónas Jónassen (1849‒1910), í
tvígang dreifa prentuðum upplýsinga-
bæklingi um sullaveiki með leiðbein-
ingum stjórnvalda um viðnámsaðgerðir,
fyrst 188419 og annarri útgáfu sama bæk-
lings 1891.20
Árið 1869 brugðust stjórnvöld við
hinum nýfengnu upplýsingum um út-
breiðslu sullaveikinnar. Gefin var út
konungleg tilskipun „um hundahald
á Íslandi“ þar sem meðal annars var
kveðið á um skráningu smalahunda
og skatt á hunda sem ekki voru not-
aðir í atvinnuskyni. Þetta vakti litla
lukku í sveitunum en örlögin snerust
á sveif með yfirvöldum því hunda-
fár geisaði innanlands í þrígang, fyrst
1870, aftur 1888 og enn á ný 1890. Það
ár voru sett lög sem miðuðu að því að
fækka hundum enn frekar.21 Auk þess
að fækka hundum var eitt mikilvæg-
asta atriði í baráttunni við sullaveik-
ina að rjúfa lífsferilinn, koma í veg
fyrir að hundar næðu að éta sollin líf-
færi. Sullum bar að farga, annaðhvort
brenna þá í eldi eða grafa svo djúpt í
jörðu að hundar næðu ekki til þeirra.
Fólki var ennfremur bent á að forðast
sem mest samneyti við hunda. Þeir sem
skipulögðu aðgerðir vissu sem var að
hundar gátu verið með bandorma þrátt
fyrir að hafa fengið niðurgangslyf.8 Til
fróðleiks má geta þess að virkt band-
ormalyf, praziquantel, sem drepur
bandormana í iðrum hunda, kom ekki
á markað fyrr en árið 1977.
SKJÓTUR ÁRANGUR
Viðnámsaðgerðirnar tóku strax að
skila árangri. Fólk var að mestu hætt
að smitast af sullaveiki strax á síðasta
áratug 19. aldar. Raunar er ekki vitað
um nema átta einstaklinga sem smituð-
ust af sullaveiki alla 20. öldina.23 Yngsti
sjúklingurinn í þeim hópi er talinn
hafa smitast á sjötta áratug aldar-
innar þannig að þá var bandormurinn
sannarlega enn til staðar í hundi ná-
lægt sjúklingnum. Síðasta dauðsfall af
völdum sullaveiki varð árið 1960. Þá
lést 23 ára kona sem talin er hafa smit-
ast ung að árum.8
Hérlendis voru hundar hvað lengst
smitaðir af ígulbandormi í Suður-Múla-
sýslu. Þar varð síðast vart við ígulband-
orm í hundum á öndverðum áttunda
áratug síðustu aldar. Síðasti sullaveiki
nautgripurinn hafði fundist hérlendis
nokkru fyrr, árið 1960.8
5. mynd. Sýni sníkjudýra á Dýrafræðisafninu í Kaupmannahöfn. Í forgrunni sést flóarbandormurinn (Dipylidum caninum), annars vegar
uppsettur á gleri, hins vegar bundinn upp. Krabbe fann flóarbandorminn í 57% hunda á Íslandi 1863. – Racks with parasite samples in the
Zoological Museum of Copenhagen. In the front of the photographs the flea tapeworm (Dipylidum caninum) is mounted on a microscopical
slide as well as tied up in a jar. Krabbe found the flea tapworm in 57% of dogs examined in 1863. Ljósm./ Photo: Karl Skírnisson.
117