Náttúrufræðingurinn - 2023, Blaðsíða 26
DAGBÓKARSKRIF OG
FJÖLSKYLDUHAGIR
Eftir rannsóknarferðina 1863 kom
Harald Krabbe í stuttar heimsóknir til
landsins sumrin 1870 og 1871. Hann hélt
dagbækur um ferðir sínar og rannsóknir
á Íslandi en það var þó ekki fyrr en um
síðustu aldamót að ferðasagan var búin
til prentunar og gefin út (2. mynd).6 Það
gerði Ivan Katić sem þremur áratugum
áður hafði fengið dagbækurnar í hendur
frá eftirmanni Krabbe á KVL, Niels Ha-
arlev (1919–1986). Ferðasagan er vel
myndskreytt, prentuð á góðan pappír,
og þar er auk þess að finna ýmsar upp-
lýsingar um fjölskylduhagi. Þar segir
frá því að í seinni ferðinni giftist hann
íslenskri konu, Kristínu Jónsdóttur
(1841–1910), dóttur Jóns Guðmunds-
sonar, alþingismanns og ritstjóra Þjóð-
ólfs, og konu hans, Hólmfríðar Þor-
valdsdóttur. Hjónin eignuðust fjóra
syni. Tveir þeirra urðu kunnir íslenskir
embættismenn, Thorvald (1876–1953),
verkfræðingur og síðar vitamálastjóri
á Íslandi, og Jón (1874–1964), lengst af
sendiráðsritari og síðast forstöðumaður
sendiráðsins í Kaupmannahöfn. Hinir
synirnir voru lögfræðingurinn Oluf
(1872–1951) og læknirinn Knud (1885–
1961) sem báðir störfuðu í Danmörku.
Harald lifði konu sína í sjö ár og lést árið
1917, 86 ára að aldri. Hjónin bjuggu alla
ævi í Kaupmannahöfn.
Í ferðabókinni er að finna margvíslegar
heimildir um sníkjudýr. Meðal annars er
þar endurprentuð yfirlitsgrein eftir Pál A.
Pálsson, yfirdýralækni.7 Auk athugana á
sullaveiki og ýmsum öðrum sjúkdómum
í fólki og fénaði lýsa færslurnar veðri,
matarveislum og viðurgjörningi, gjarnan
hjá fyrirmennum þjóðarinnar en líka hjá
öðrum þeim sem aðstoðuðu hann, fylgdu
honum eða hýstu á ferðalögunum.
Víða kemur fram áhugi Krabbe á
jurtum. Hann fór iðulega í gönguferðir á
kvöldin og skráði þá fræðiheiti og blóm-
þroska jurta sem urðu á vegi hans. Þá
nefnir hann allajafna hverjir útveguðu
honum eða færðu efnivið til rannsókna
á sníkjudýrum. Ekki einungis hunda
og ketti heldur líka ýmsa villta fugla
og spendýr, svo sem rottur og jafnvel
blöðrusel (Cystophora cristata). Einnig
kemur fram að hann hafði einsett sér að
kryfja 100 fullorðna hunda á Íslandi. Það
er nefnt sérstaklega þegar fram kemur
að stuttu fyrir brottförina til Danmerkur
afþakkar hann hund sem honum stóð til
boða. Sá hundur hefði orðið númer 101.
Greinilegt er að Krabbe hafði kapp-
kostað að undirbúa rannsóknarferðina
1863 sem best. Það má meðal annars sjá
af lista yfir skordýr – „Islands Insekter“
– sem hann hafði meðferðis (3. mynd).
Skráin var gerð eftir upplýsingum þýska
skordýrafræðingsins Otto Staudinger sem
komið hafði til rannsókna á Íslandi 1856.
SULLAVEIKI Á ÍSLANDI
– ORSAKIRNAR ENN ÓÞEKKTAR
Nýlega var fjallað um sullaveiki á Ís-
landi í grein í Náttúrufræðingnum þar
sem lífsferli sníkjudýrsins var lýst og
saga útrýmingarinnar rakin í stórum
dráttum.8 Áður en kunnugt varð um
lífsferil ígulbandormsins vissu menn
hvorki hvaða fyrirbæri sullir voru né
hvort, og þá hvernig, hægt væri að verj-
ast því að fá sullaveiki. Fengu því hundar
á blóðvelli – öllu fé var slátrað heima á
bæjum allt fram á 20. öld – iðulega að
éta hrá, sollin líffæri sem flestum þóttu
ókræsileg. Þannig viðhéldu hundar og
grasbítar lífsferlinum og smit magnaðist
upp þar sem smitaðir hundar héldu til
og bandormsegg náðu að dreifast út frá
hundaskítnum. Og þegar bandormsegg
bárust óviljandi ofan í fólk þroskaðist
eggið í sull. Það var raunar blindgata í
lífsferli ormsins, nema ef svo ólíklega
vildi til að hundur kæmist beint í inni-
hald sulls úr manni. Sullirnir sprungu
nefnilega stundum út í öndunarveginn
og flæddu út úr fólki.9
Eldsmaturinn fyrir háa smittíðni
sullaveikinnar um miðja 19. öld var
mikill. Íbúafjöldinn var um 70 þús-
und manns og fjöldi sauðfjár á bilinu
600–700 þúsund. Á sama tíma var fjöldi
hunda í landinu talinn vera á bilinu 15–
20 þúsund, eða hundur á hverja þrjá til
fjóra landsmenn.7 Ekki var að furða að
2. mynd. Rit sem Ivan Katić gaf út í Kaup-
mannahöfn árið 2000.6 Þar eru meðal
annars birtar dagbókarfærslur Haralds
Krabbe frá Íslandsferðum hans árin 1863,
1870 og 1871. – Cover page of a boo-
klet published by Ivan Katić in Copen-
hagen 2000 with diary notes written by
Harald Krabbe during his visits to Iceland in
1863, 1870 and 1871.6 Ljósm./Photo:
Karl Skírnisson.
Náttúrufræðingurinn
114