Náttúrufræðingurinn - 2023, Blaðsíða 28
krufningar. Til dæmis segir í færslu frá
6. júlí eftir að hafa þegið góðgerðir á bæ
á suðurlandi (Kópsvatni), „Vi fik Kaffe
og den ene af de 2 Hunde.“ Daginn eftir
kom hann á annan bæ í nágrenninu
„hvor jeg fik en Hund“ og síðar sama
dag „en Kat“.
Væntanlega krufði Krabbe dýrin sem
honum áskotnuðust á staðnum þótt hann
geti þess hvergi sérstaklega. Er hann
raunar spar á aðferðalýsingar. Við krufn-
ingu er auðvelt að koma auga á spólu-
orma og stóra bandorma þegar búið er
að rista meltingarveginn upp og skola
innihaldið niður í ílát (ormarnir eru allt
frá nokkrum tugum sentimetra í nokkra
metra á lengd) en ekki er ljóst hvernig
Krabbe leitaði að ígulbandorminum sem
ekki verður nema nokkurra millimetra
langur. Kannski dugði honum stækk-
unargler. Strax á þessum árum var farið
að varðveita sníkjudýr í vínanda. Þegar
heim til Hafnar var komið voru ormarnir,
eða hlutar þeirra, litaðir og þeim komið
fyrir í sérstöku gagnsæju, þéttfljótandi
innsteypingarefni á smásjárgleri þannig
að hægt yrði að skoða sýnin í smásjá
(Innskotsgrein A).
Meðan á dvölinni stóð 1863 krufði
Harald Krabbe alls 100 hunda, eins
og áður sagði, 31 kött og einn ref.4,5 Í
hundunum fann hann fjórar tegundir
bandorma, og voru 93% þeirra smitaðir
af einni eða fleiri tegundum. Netju-
sullsbandormurinn (Taenia hydatigena)
var algengastur (fannst í 75% hund-
anna), næstalgengastur var flóarband-
ormurinn (Dipylidum caninum) (57%)
(5. mynd), þá ígulbandormurinn (28%)
en höfuðsóttarbandormurinn (Taenia
multiceps) rak lestina (18%). Öllum
þessum tegundum hefur nú verið út-
rýmt á Íslandi.24
VIÐNÁMSAÐGERÐIR
Fljótlega eftir rannsóknarferðina 1863
sendi Harald Krabbe dómsmálastjórn-
inni skýrslu þar sem hann lagði til að
ritað yrði alþýðlegt kver þar sem skýrt
væri hvernig sullaveiki í mönnum og
skepnum megi rekja til ígulbandorms-
ins í hundum og hvaða varúðarreglum
sé skynsamlegt að fylgja til að forðast
veikina. Einnig gaf hann þau ráð að
reynt yrði þegar í stað að fækka hundum
innanlands, svipað og Leared hafði
lagt til árið áður. Strax næsta ár gáfu
íslensk stjórnvöld svo út bæklinginn
Athugasemdir handa Íslendingum um
sullaveikina og varnir móti henni eftir
Krabbe.3 Pésanum var dreift ókeypis inn
á öll heimili í landinu.
Næstu áratugi skipulögðu yfirvöld
víðtækar aðgerðir til að útrýma sulla-
veiki í mönnum og dýrum. Upphaflega
hafði Krabbe forystu í þessum verkum
4. mynd. Handskrifaður listi sem Harald
Krabbe útbjó fyrir Íslandsferðina 1863 með
heitum ýmissa skordýra. – Handwritten list of
some insects in Iceland prepared by Harald
Krabbe before his research trip to Iceland in
1863. Eftir/from: Krabbe 2000.6
Náttúrufræðingurinn
116