Náttúrufræðingurinn - 2023, Blaðsíða 33
Síðustu fjórar greinarnar birtust á ár-
unum 1880 til 1905 í Nordiskt Med-
iciniskt Arkiv. Greina þær frá smiti af
völdum fjögurra bandorma í mönnum í
Danmörku (alls 451 manni) sem greinst
höfðu með bandormasmit á síðustu
áratugum 19. aldar, raunar allt fram til
1905. Algengastur var nautgripaband-
ormurinn (Taenia saginata), sem fannst
í 320 mönnum, smittíðnin 71%. Svína-
kjötsbandormurinn (Taenia solium) var
í öðru sæti, fannst í 17% tilvika; breiði
bandormurinn (Dibothriocephalus la-
tus) var í 8% einstaklinganna, en flóar-
bandormurinn (Dipylidum caninum) var
sjaldgæfastur (4%).1,36–38
Iðraormar húsdýra
Árið 1872 birti Krabbe viðamikla yfir-
litsgrein (55 bls.) um iðraorma í hús-
dýrum.39 Þar skiptir hann iðraormum í
fjóra hópa, bandorma, ögður, þráðorma
og krókhöfða. Síðan fer hann yfir allar
tegundirnar sem þá voru þekktar innan
þessara hópa í níu tegundum húsdýra
(hrossum, svínum, nautgripum, sauðfé,
hundum, köttum, hænsnum, öndum og
gæsum) og rekur algengi þeirra og skað-
semi. Samantektin lýsir yfirgripsmik-
illi og staðgóðri þekkingu. Til dæmis
telur Krabbe upp 17 tegundir iðraorma
í hænsnum, 15 í öndum og 13 í gæsum.
Áratug síðar bætir hann hátt í þremur
tugum nýrra tegunda á þessa lista.40
Greinarnar sýna berlega að Krabbe
fylgdist náið með framþróun sníkju-
dýrafræðanna. Tveimur árum áður
hafði hann birt grein um skaðann sem
iðraormar geta valdið í mönnum og
dýrum.41
Skoðun bandormskróka
og rannsóknir á lífsferlum
Þegar árið 1862 birti Krabbe teikningar
af krókum bandorma sem hann dró upp
með hjálp teiknitúpu (sjá Innskotsgrein
B).42 Þegar hér var komið sögu höfðu
bandormafræðingar áttað sig á því að
stærð og útlit króka var eins í lirfum og
fullorðnum ormum sömu tegunda. Bar
hann saman króka úr lirfustigum og
fullorðnum bandormum hjá moldvörpu
(Talpa europea), rauðref (Vulpes vulpes)
og rádýri (Capreolus capreolus).
Nokkrum árum síðar ritar Krabbe aðra
grein þar sem farið er yfir lífsferla band-
orma sem lifa í fuglum og fiskum.43 Lýsir
hann meðal annars lirfum úr svartsnigl-
inum Arion ater. Nokkrum árum síðar
greindi Krabbe frá því að tekist hefði að
staðfesta að hundalúsin, Trichodectes
canis, gæti verið millihýsill flóarband-
ormsins (Dipylidum caninum).44 Á Ís-
landi er talið að mannaflóin (Pulex
irritans), hafi fyrst og fremst gegnt
því hlutverki.36
Tríkínur og tunguormar
Fundist hafa fimm greinar frá árunum
1860 til 1867 í ritinu Tidsskrift for Vet-
erinairer sem fjalla um tríkínu eða
fleskorminn (Trichinella spiralis).45-49
Fyrsta greinin er almenns eðlis og lýsir
því hvernig mönnum tókst með til-
raunum að ráða lífsferil sníkjudýrsins,
hluti greinarinnar fjallar raunar um
tunguorminn (Pentastomum taenioides).
Hinar greinarnar fjalla almennt um
tríkínur og um rannsóknir á algengi
þeirra í svínum og svínaafurðum, svo
sem í reyktri skinku í Danmörku.
6. mynd. Dýrafræðisafnið í Kaupmannahöfn tók formlega til starfa 1862. Sýningarhlutanum var lokað við endurskipulagningu 2022 en
til stendur að opna sýningar að nýju undir merkjum Náttúrgripasafns Danmerkur við Kaupmannahafnarháskóla 2025. – The Zoological
Museum in Copenhagen was eastablished in 1862. Exhibitions were closed in 2022. The Museum will reopen as a part of the the
Natural History Museum of Denmark, affiliated to the University of Copenhagen, in 2025. Ljósm./Photo: Karl Skírnisson.
121