Mímir - 01.06.2005, Page 11
Ljósmynd: Gréta S. Guðjónsdóttir
samferðamenn Matthíasar heiðruðu minningu hans
með greinasafninu Engill tímans sem kom út 23.
júni 2004, en þann dag hefði hann orðið fimmtugur.
Bókin gefur hugmynd um þau margvíslegu áhrif
sem hann hafði á fólkið í kringum sig og hve annt
honum var um að hver fyndi sína rödd og sína leið
í lífinu.
Ég kynntist Matthíasi fyrst sem kennara á
námsárum mínum og er sérstaklega minnisstætt
námskeið hans um rannsóknarstefnur í
bókmenntafræði vorið 1987 þegar hann leiddi okkur
nemendur í allan sannleikann um þá kumpána
Lacan, Derrida og Foucault, en franska teorían
kom alveg þvert á hin hefðbundnu fræði sem manni
höfðu verið innrætt. Ég varð svo upptendraður að
áður en ég vissi af var ég búinn að skrifa ritgerð um
sálmakveðskap siðskiptaaldar út frá sálgreiningu
Lacans - og meistara mínum var skemmt. Þegar
ég fór sjálfur að kenna í Háskólanum mörgum
árum síðar áttum við Matthías eftir að sjá um
nokkur námskeið saman í íslenskuskor, einkum
yfirlitsnámskeið um bókmenntasögu síðari alda en
einnig námskeið um Ijóð og heimspeki, auk þess
sem við unnum saman að fjarkennslumálum. Við
áttum líka gott samstarf á vettvangi Félags um
átjándu aldar fræði, en hann var einn af stofnendum
þess. Matthías var formaður ísienskuskorar
2000-2002 og bæði röggsamur og framsýnn eins
og vænta mátti. Það voru forréttindi að fá að starfa
með slíkum manni og mikill sjónarsviptir að honum.
Skorarmenn misstu þar góðan vin og afar öflugan
liðsmann.
Eftirlifandi eiginkona Matthíasar er Steinunn
Ólafsdóttir leikkona og eignuðust þau saman
dótturina Jóhönnu Steinu, en Matthías var einnig
fósturfaðir Nönnu Elísu Jakobsdóttur, eldri dóttur
Steinunnar. Þau bjuggu saman í fallegri íbúð við
Bárugötuna og þangað var gott að koma. Þar
sá ég hann síðasta sinni í faðmi fjölskyldunnar,
brosmildan og hugdjarfan þó að hann vissi
mætavel að hverju dró, og það er mynd sem líður
mér seint úr minni.
Sveinn Yngvi Egilsson
9