Mímir - 01.06.2005, Page 127
það að u-hljóðvarp sé virk hljóðkerfisregla
í nútímamáli. Á hinn bóginn myndi líklegast
vandast nokkuð málið hjá þeim þegar kemur að
myndunum sandugur og hlandugur sem komu fyrir
í um helmingi tilvika og ekki gott að spá fyrir um
hugsanlegar skýringar á þeirri „undantekningu frá
reglunni"!
Þeir sem ekki fallast á rök um virkni u-
hljóðvarpsins kímdu líklegast og segðu að einmitt
sú staðreynd að aðeins helmingur þátttakenda hafi
þá máltilfinningu að a : ö-víxl eigi heima í þessum
orðmyndum og jafnstór hópur hafi tilfinningu fyrir
því að svo ætti ekki að vera, styðji einmitt þær
skoðanir að u-hljóðvarp sem virk hljóðkerfisregla
sé ekki fyrir hendi í málinu. Ef svo væri kæmu
slíkar tvímyndir alls ekki upp. Þeir myndu þannig
telja að a : ö-víxlin væru í hæsta máta eðlileg út frá
beygingar- og orðmyndunarlegum reglum sem fyrir
eru í málinu og það skýrði val sumra málhafanna.
Hvað hinn hópinn áhrærir sem valdi sandugur
- hlandugur bentu þær orðmyndir til allt annarrar
máltilfinningar sem ekki væri auðvelt að fullyrða
um. Ekki væri hægt að búast við því að morfemaskil
á milli stofns og viðskeytis gætu af einhverjum
ástæðum verið sterkari í huga síðarnefnda hópsins,
og því orkað sem hömlur á hin beygingarlegu
víxl. En aðalatriði málsins hlýtur að vera það að
athugun sem þessi sýndi ótvírætt fram á að virkni
u-hljóðvarps í nútímamáli á ekki við rök að styðjast.
5. Lokaorð
Hér hefur verið fjallað um u-hljóðvarp og tengsl
þess við nútímamálið. Engum blöðum er um það
að fletta að a : ö-víxlin eru mjög algeng í íslensku,
hvort sem um er að ræða beygingu, orðmyndun,
nýyrði eða tökuorð. Hitt er einnig Ijóst að víða verða
slík víxl alls ekki í orðum eða orðhlutum þar sem
þeirra mætti vænta og ekki virðast ástæður þess
alltaf liggja Ijósar fyrir.
Sjónum hefur hér einkum verið beint að
tveimur grundvallarspurningum um u-hljóðvarpið:
þ.e. annars vegar hvort líta beri á það sem
hljóðkerfislega eða beygingarlega skilyrt og hins
vegar hvort u-hljóðvarpsreglan sé virk í nútímamáli.
Af því sem nú hefur verið rakið má sjá að
skoðanir eru greinilega mjög skiptar um það hver
tengsl u-hljóðvarps við nútímamálið séu. Einkum
hafa tvenns konar andstæð sjónarmið komið fram
sem í stuttu máli snúast um þetta:
I. Um virka hljóðkerfisreglu er að ræða í
nútímamáli enda eru hin algengu víxl a : ö í
málinu talandi dæmi um þetta sívirka hljóðferli.
Meginreglan er greinilega sú að a breytist í ö
þegar u kemur í næsta atkvæði á eftir. Þess ber
þó að gæta að þetta u má ekki vera innan saman
morfems og einnig verður að hafa í huga í þessu
sambandi að mörk myndana eru missterk þannig
að stundum hindra þau verkun u í næsta atkvæði.
Sömu víxl, a : ö, má einmitt sjá í nýyrðum og
tökuorðum sem lúta þessum sömu lögmálum
hinnar virku hljóðkerfisreglu.
Karlkynsnafnorð og -lýsingarorð í nefnifalli virðast
í fyrstu þverbrjóta þessa reglu en skýringin er sú að
yfirborðsmynd endingarinnar -ur í slíkum dæmum
er leidd af baklægu r-i. Það er því ekki svo að u sé
í grunnformi slíkra orða eins og virst gæti við fyrstu
sýn heldur er því skotið inn á milli rótaratkvæðis og
baklægs -r með u-innskotsreglunni. U-innskotið
verkar á eftir u-hljóðvarpi og u-hljóðvarpið er
því fallið úr gildi þegar innskots-u-ið kemur
til sögunnar. U-innskot í endingu er því virk
samtímaleg hljóðkerfisregla í nútímamáli eins og
u-hljóðvarpið.
II. Engan veginn er hægt að líta svo á að u-
hljóðvarp sé virk hljóðkerfisregla í nútímamáli.
Benda má á þungvæg gagnrök þegar litið er
til orða eins og maður og grannur þar sem
engin hljóðvarpsvíxl verða. Að u-innskot sé virk
hljóðkerfisregla eins og u-hljóðvarp stenst ekki
og skýrir því ekki hvers vegna ekki verða u-
hljóðvarpsvíxl í slíkum orðum. Hið forna, sögulega
u-hljóðvarp getur ekki lengur verið að verki sem
virkt, eðlilegt hljóðferli í málinu. Tími þess er liðinn
og leita verður annarra samtímalegra skýringa á
þessum algengu hljóðavíxlum í málinu. í nútímamáli
eru slík víxl orðin hluti af hljóðafari íslenskunnar,
beygingarmynstur þar sem skiptast á a og ö
eru frjó í málinu. Þannig má segja að íhaldssemi
beygingarmynstursins verði til þess að hið eðlilega,
forna hljóðferli varðveitist. Ekki er því hægt að segja
að u-hljóðvarp sé virk hljóðkerfisregla í nútímamáli
heldur er um hljóðbeygingarreglu að ræða, víxlin
eru morfófónemísk. Það er ekki heldur eðlilegt að
gera ráð fyrir tvenns konar u-hljóðvarpi, þannig að
hljóðkerfislegt u-hljóðvarp skýri t.d. víxl a : ö í orði
eins og börnum en beygingarlegt hljóðvarp skýri
víxl a : ö í börn. Þvert á móti hlýtur í báðum tilvikum
að vera um hljóðbeygingarlegar ástæður víxlanna
að ræða.
( umfjölluninni hér um u-hljóðvarpið og tengsl
þess við nútímamálið er víst að margt sem máll
skiptir í því sambandi hefur verið látið órætt enda
um margslungið mál að ræða. Sýnt hefur verið
fram á lífleg skoðanaskipti fræðimanna þar sem
tekist er á um veigamikil grundvallarsjónarmið um
u-hljóðvarpið.
Athugun sem ég gerði á orðmyndun tólf málhafa
bendir til þess að fólk hafi mjög mismunandi
tilfinningu fyrir u-hljóðvarpsvíxlum. Helmingur
þátttakenda myndaði orðin sandugur: hlandugur
og helmingur myndaði orðin söndugur : hlöndugur.
Ekkert í þeirri athugun virðist mér benda til þess að
rétt sé að gera ráð fyrir virkri hljóðkerfisreglu.
125