Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1913, Page 68
70
svartir, þök rauð, og á miðhúsinu bláleit. Engin einkunn er hjá
þessari biskupsmynd; hinar myndirnar eiga að sýna hver hann er.
Neðri myndin vinstra megin sýnir mann er ríður steingráum
og dröfnóttum hesti; er hann á rauðum kyrtli og svörtum leistabrókum
nærskornum, með kápu yfir herðum sér, og eru grá skinn innan á
kápunni. Yinstri hendi heldur hann í taumana, en í hægri hendi
heldur hann miklu sverði og sníður með því neðan af kápu sinni,
en nakinn maður, og þó í línhrókum stuttum, tekur við því er hann
sniður af kápunni. Fyrir aftan sést rauður borgarmúr með opnu
hliði. — Gjarðir á hestinum eru rauðar, beizli grænt með gullnum
skjöldum við munnvik; reiðverið grænt. Broddsporar gullnir eru á
fótum mannsins, og istöðin eru og gylt. Sverð er með silfurlit.
Höfuð bert, en hár mikið.
Þessi mynd er auðþekkileg. Hún sýnir þann atburð úr æfi hins
heilaga Marteins biskups í Túronsborg (Tour á Frakklandi), er hann
oft og einatt er táknaður með, er hann gaf hálfan möttul sinn klæð-
lausum manni, sem hann mætti við borgarhlið einn vetrardag í frosti
miklu; var það áður hann yrði biskup, þá er hann var í riddara-
liði á unga aldri. — Miðmyndin á því auðvitað að tákna hinn heil-
aga Martein, dýrling þann er kirkjan á Möðruvöllum og allmargar
(9) kirkjur aðrar hér á landi voru helgaðar. Verður nú að skýra
nokkuð frá æfi þessa merkilega dýrlings.
2. b. Hinn heilagi Marteinn biskup fæddist á Langbarðalandi
árið 319, en var ættaður af Ungverjalandi, frá Sabaríu (nú Steina-
manger). Faðir hans var riddarahöfðingi og setti son sinn 15 vetra
í riddarasveit, nauðugan þó, því að sveinninn var hneigður fyrir
trú og guðsþjónustu; lét primsignast er hann var 10 vetra og ætl-
aði að gerast einsetumaður er hann var að eins 12 vetra. Þrjá
vetar var Marteinn í riddaraliðinu áður hann var skírður, og á þeim
árum á sá atburður að hafa orðið, er myndin sýnir. Tveim árum
eftir að hann lét skíra sig, mun hann hafa losnað úr herþjónustunni.
Fór hann þá til Hilaríusar biskups í Peituborg á Frakklandi; tók
hann honum vel, vígðist Marteinn þar nokkrum hinum minni vígsl-
um, en vildi eigi taka hinar meiri að svo stöddu. Þá var hann á
það mintur í draumi að taka sig upp og boða frændum sínum trú.
Lenti hann í miklum háska og þrautum í þeirri ferð; komst þó heill
heim og fékk kristnað móður sína og marga aðra, en þó eigi föður
sinn. Þá hófst Aríusar kenning og reis Marteinn upp á móti henni,
en varð fyrir það að flýja land og fór til Langbarðalands. Ætlaði