Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1937, Síða 144
142
er komin frá sjálfum höfundi ritsins. Hið eina, sem útgefandinn getur
gert, er að benda á hana í skýringu, ef um útgáfu með skýringum.
er að ræða, og þá aðferð hefi eg einmitt haft með því að vísa til rita
þeirra Kálunds og Brynjólfs frá Minna-Núpi.
/ þriðja lagi heldur höfundur því eindregið fram, að allar mis-
fellur, villur og ónákvæmni í fornum textum séu afriturum að kenna.
Ver hann til þess allmiklu máli að sýna fram á, hversu vond vinnu-
skilyrði þeir hafi haft og illan aðbúnað. Nú er því vitanlega alls ekki
að neita, að margar villur eru þannig til komnar, og dylst það engum,
sem við textarannsóknir hafa fengizt. En það nær vitanlega engri
átt að kenna þeim um allt, sem aflaga fer. Höfundar fornrita vorra
voru menn á mannlega vísu alveg eins og afritararnir og einnig vér
nútímamenn. Þeim gat oft skjátlazt, og þeim hefir oft skjátlazt, svo
sem oftlega má sanna. Þeir áttu við býsna misjöfn vinnuskilyrði að
búa alveg eins og afritararnir, þeir gátu fengið rangar frásagnir,.
sem þeir höfðu ekki aðstöðu til að leiðrétta, og sjálfir hafa þeir verið
misjafnlega vaxnir höfundarstarfsemi, alveg eins og enn á sér stað
meðal vor. Þessi er skoðun okkar, sem unnið höfum að útgáfum ís~
lenzkra fornrita, og sú skoðun er byggð á bæði almennum og sérstök-
um rökum, sem hér er ekki rúm til að rekja frekara, en eru þannig
vaxin, að þau eru óyggjandi. Hin blindaJ tröllatrú á óskeikulleik
fornra höfunda er nú úrelt orðin meðal þeirra manna, er dómbær-
astir eru taldir á þá hluti. Og það má segja, að afritararnir hafi nóg
á sinni könnu fyrir því. En það er langt frá því, að allar syndir séu
þeim að kerma.
í fjórða lagi heldur höf. fram skoðunum á textameðferð, sem
löngu eru gersamlega úreltar og enginn góður fræðimaður myndi nú
fara eftir í vönduðum útgáfum. En það er að hræra saman mörgum
handritum, velja það úr hverju handriti fyrir sig, sem útgefanda
þykir bezt, og búa þannig til texta, sem að vísu gæti orðið góður á
sinn hátt, en yrði þó allt af fölsuð mynd af frumtextanum. Dæmi
slíkrar aðferðar er hin mikla Njáluútgáfa Konráðs Gíslasonar. Hann
notar öll skinnhandrit sögunnar, um 20 að tölu, tekur það úr hverju
um sig, sem hann telur bezt, og býr svo til úr þeim graut texta,
sem það eitt má segja um með vissu, að aldrei hefir áður til verið
og úr einskis höfundar penna komið. Því verður vitanlega ekki neit-
að, að þessi texti Konráðs er góður á sinn hátt. En hugsum okkur nú,
að annar maður, óháður Konráði, tæki sér fyrir hendur að gefa út
Njálu með sömu starfsaðferðum. Hvað myndi leiða af því? Nýr
Njálutexti, sem einnig væri góður og álitlegur á sinn hátt, en yrði
vafalaust mikið frábrugðinn texta Konráðs og frumtextanum engu