Eimreiðin - 01.05.1921, Qupperneq 42
170
RÆÐAN
[EIMP.EIÐIN'
söfnuðust kring um stóra borðið í aðalstofunni. Orsökin
var sú, að Ari Arason Orri, afmælisbarnið fertuga, var
ófáanlegur til að standa upp úr sófanum, enda fór vel um
hann þar við hliðina á Agústu Holm. Eg þekti hana ekki
mikið, en var að hugsa um það þá um kvöldið, að það
væri ekki ofsögum sagt af því, hversu fögur hún er og
freistandi. Ari Arason Orri var að vonum fastur í sófan-
um, og hægri handleggurinn á honum, er sneri að Ágústu
Holm, var horfinn fyrir löngu — bak við tjöldin. En við
hina hlið hennar sat bróðir hennar, Sæmundur Holm
kaupmaður, og lék við hvern sinn fingur, þrátt fyrir allar
skuldirnar og ógurlegar horfur. — Vonarneistinn í hjarta
hans var orðinn að báli.
Og hver ræðan rak aðra, Menn voru ekki að fást um
það, þótt ekki væri þeim öllum nákvæmur gaumur gefinn.
Áheyrendurnir þurftu að spjalla sín á milli á meðan, lágt
að vísu og siðsamlega. Ræðumenn voru allir of hrifnir af
sjálfum sér til þess að þeim væri það ekki nóg að heyra
til sin sjálfra, og nokkur »heyr« og »bravó« puntuðu upp
á ræðurnar. — Menn voru að skemta sér. —
Ásmundur Pálsson var hinn prúðasti. Hann drakk
hverja skál, en hófsamlega þó. — Eitt sinn stóð hann
upp og las upp nýtt kvæði eftir sjálfan sig, þunglyndis-
legt en gott; eg gat þá hvíslað að honum, að lesa ekki
meira upp í bráðina, og hann gegndi því.
En alt í einu, þegar hlé varð á ræðuhöldunum, stóð
hann upp. Eg vissi það, að hann var enginn mælsku-
maður; ræður hans eru vanalega taldar gerómerkilegar,
sem rœður, — alt kemur sitt úr hverri áttinni. Eg kveið
því fyrir því, hans vegna, að hann yrði til athlægis, því
eg vissi, að ýmsir voru þar inni, sem þektu hann lítt,
misskildu hann algerlega, og vildu misskilja.
Hann er enginn heimskingi, en hann er ístöðulítill og á
bágt með að halda huganum i skefjum, sérstaklega við öl.
»Það væri að bera i bakkafullan lækinn«, sagði hann,
»að fara að hæla Ara Arasyni Orra meira í nótt, eða óska
honum frekar til hamingju á komandi timum. Enda eru
slíkar óskir og gal lítils virði, að mínu áliti, samanber