Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1927, Page 40
42
3. Eignir félagsins og fjárhagur.
Ræktunarfélag Norðurlands byrjaði starfsemi sína
1903, með tvær hendur tómar. Frá stuðningsmönnum
félagsins bárust því þó nokkurar gjafir. Búnaðarfélag
íslands veitti félaginu lítilsháttar styrk og svo fékk
það tillög félagsmanna sinna, sem flestir vóru ársfé-
lagar. En strax á öðru ári félagsins vaxa fjárráðin til
muna við það, að Búnaðarfélag íslands veitir félaginu
kr. 6700.00 styrk, sem hækkar 1906 upp í 10200.00 kr.
og 1907 upp í 11000.00 kr. Svo lækkar styrkurinn aftur
1908 niður í 8500.00 kr. og helst síðan að mestu ó-
breyttur til 1919, en hækkar þá upp í kr. 17000.00 og í
kr. 19500.00 1922, en lækkar árið eftir niður í 12500.00
kr. Það er eftirtektarvert, að styrkurinn árið 1923 er
aðeins kr. 1500.00 hærri heldur en árið 1907. Þessi
skyndilega lækkun styrksins, hefði getað haft hinar al-
varlegustu afleiðingar fyrir félagið, sem einmitt á
þessum árum stóð höllum fæti, vegna ýmiskonar áfalla,
ef hún hefði orðið varanleg, en svo varð þó eigi. Árið
1925 hækkar styrkurinn frá Búnaðarfélaginu aftur
upp í kr. 16800.00 og auk þess fékk Ræktunarfélagið
það ár kr. 4000.00 aukastyrk frá Búnaðarfélaginu. Nú
sem stendur, er árlegur styrkur Búnaðarfélagsins til
Ræktunafélagsins kr. 17000.00.
Það hefur áður verið skýrt frá tekjum þeim, er fé-
lagið hefur haft frá sýslu- og búnaðarfélögum, og
hvernig þeim tekjum hefur verið varið.
Ennfremur hefur félagið haft talsverðar tekjur af
Gróðrarstöðinni, þó útgjöldin til þeirrar starfsemi hafi
vitanlega altaf numið talsvert hærri upphæð. Kúabúið
hefur líka gefið talsverðar tekjur, þó hreinn arður af
því hafi oft verið lítill og stundum enginn, 2 síðastlið-
in ár hefur það þó gefið sómasamlegan arð.