Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1987, Blaðsíða 46
46
BRÉF NOKKURRA FRÆÐIMANNA
The Fiske Icelandic Collection,
Cornell University Library,
Ithaca, N.Y., 23. ágúst 1935.
Kæri vinur,
Ég heföi átt að svara bréíl þínu frá 13. maí fyrir löngu, en það hefur
dregizt úr hömlu fyrir mér.
Hvað snertir þau tímarit, sem ég hef sent Landsbókasafninu, skal
ég geta þess, að meðan ég var í burtu í fyrra, komst eitthvað á
ringulreið með sendingu þeirra til mín og sum númerin glötuðust. Ég
hef verið að reyna að kompletera (fyrirgefðu solecismann) árgangana,
en það hefur dregizt á langinn. Ég hef ætlað að senda þér þá síðar
meir. Annars hef ég verið að athuga bókasafn mitt og hef hugsað mér
að senda Landsbókasafninu ýmsar bækur, og ef það verða margar, er
bezt að senda þær (og þá tímaritin líka) í kassa til ykkar með
haustinu.
Ég sé þú hefur verið í Geneva, las ferðapistil eftir þig í Morgun-
blaðinu. Vona ég, að ferðin hafi gengið vel að öllu.
Ég þakka fyrir góð orð þín um Illuminated MSS, þó ég geti ekki
alveg fallizt á aðfinnslu þína um mannsandlitin. Þú hefur víst hitt
Munksgaard í Kmhöfn. Hann hefur ennþá stór plön með höndum,
sem hann hefur víst talað um við þig, og er vonandi, að hann geti
komið þeim í framkvæmd, enda ættum við íslendingar að styrkja
hann í því efni. Hvað annars andlegri samvinnu við Dani viðvíkur, þá
gæti ég trúað því, að það kynni að verða nokkuð erfitt fyrir okkur, úr
því Sjálfstæðispostularnir eru alltaf í tíma og ótíma að segja þeim
það, að við ætlum að skilja við þá 1943. Enginn veit, hvað þá skeður,
og það er bezt að vera ekki að hampa þessu stöðugt framan í fólk, en
Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera svo andlega snauður, að hann hefur
ekkert annað pósitívt (jákvætt?) að tala um.
Með kærum kveðjum,
þinn einlægur
Halldór Hermannsson
fyrirgeföu solecismann: hina erlendu slettu.