Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1987, Blaðsíða 19
SIGURÐUR NORDAL
19
skrifi fallega ritgerð um hann, og helzt vildi ég hafa gert það nú,
meðan Belgía er troðin hófum Húna, - en lífið segir með krepptan
hnefann: takmörkun, takmörkun! Guð minn góður, manninum eru
ekki gefnar víðfaðma greinar nema til þess að láta klippa þær af sér.
Óska, að jólin og nýárið verði þér og húsi þínu gleðileg.
Þinn einlægur,
Sigurður Nordal.
Með Dúnu Kamban er átt við sögu Guðmundar Kambans, Dúnu Kvaran, er kom í
lokahefti Skírnis 1916.
5 Walton Well Road,
Oxford, 17. júní ’17.
Kæri vinur.
Það var fallega gert af þér að senda mér bókina þína, hafði rennt
vonarhug eftir henni norður um haf. Hef lesið bókina með mestu
ánægju, og er þar oft eins og hver sjái sjálfan sig, t. d. kannast ég
ákaflega vel við það, sem þú segir á bls. 143. Yfirleitt skrifa ég betur í
heftar bækur en á laus blöð. Þar bætist við kappið, að fylla heila bók
með góðu skrifi, sneplar og blöð eru eins og hafi enga byrjun eða endi,
og safnfýsin (sneplar týnast, er kastað burt o. s. frv.). í ýmsum líkum
atriðum hef ég reynslu, sem er mér dýrmæt; ég nota alls konar
uppeldisbrögð við sjálfan mig, og þó ég sé nógu íhugull til þess að
vita, að þetta eru brögð, þá gengur mín óspillta náttúra sífellt í
gildruna! Jæja. Ég vona nú, að alþingi, þó það hvorki kunni
vinnuvísindi, sem bjóða, að hver vinni það, sem honum hæfir bezt, né
andlega verðfræði, sem enginn kann nú reyndar, - sjái svo sóma sinn,
að þú getir framvegis fengizt við þetta og annað því líkt í næði og án
þess að þurfa oftar að eiga neitt undir þeim ,útvöldu‘.
Ekki má ég gleyma að þakka þér þýðinguna á ræðu Wilson’s, sem
reyndar hefði vel mátt koma í Skírni. Það var eitt af þeim verkum,
sem ég hefði viljað vinna, en fannst ég ekki hafa tíma til. Er líka klaufi
að þýða.