Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1987, Blaðsíða 74
74
BRÉF NOKKURRA FRÆÐIMANNA
Svo að ég víki aftur að greininni um Gísla Brynjúlfsson, þá sjáið
þér, að ég hefi haldið hans rithætti í tilvitnunum og kvæðaheitum, en
þessu getið þér auðvitað breytt, ef þér viljið.
Með beztu kveðju og óskum.
Yðar einlægur
Richard Beck
The University of North Dakota
Grand Forks, 31. des. 1939
Department of Scandinavian Languages
Heiðraði vin,
Ég hefi að vísu ekki fengið Bókmenntafélagsbækurnar fyrir 1939
enn þá, og mun það að kenna seinleika í skipaferðum vegna stríðsins;
en í bréfum heiman af íslandi hefi ég frétt, að þér hafið birt í Skírni
grein mína um um Gísla Brynjúlfsson og Byron og ritdóma mína.
Mun ég því eiga einhver ritlaun hjá félaginu. Vil ég í því sambandi
biðja yður að gera mér dálítinn greiða. Ef að ritlaunin nema meira en
100 krónum, vil ég biðja yður að greiða þá upphæð (kr. 100) inn í
sparisjóðsbók h.f. Jörð nr. 3217 í Landsbankanum og fá kvittun fyrir
og senda mér hana í pósti. Ef ritlaunin nema minna en 100 kr., vil ég
biðja yður að greiða þau í heild sinni inn í nefnda sparisjóðsbók; sé
eitthvað, hinsvegar, fram yfir 100 kr., vil ég, að það standi inni hjá
Bókmenntafélaginu í bráðinu. Fyrirgefið svo þetta kvabb.
Snæbjörn Jónsson bóksali gat þess í bréfi til mín, að þér mynduð
gjarnan vilja birta grein í Skírni komandi ár um Thomas Hardy í
tilefni af aldarafmæli hans. Ég skal gjarnan semja slíka grein fyrir
yður, en hvað mætti hún vera löng? Ég myndi skrifa 10-12 bls. grein.
Vil ég svo bæta því við, að ég hlakka til að fá Skírni þessa árs sem
endra nær, og alltaf þykir mér einnig góður fengur í öðrum ritum
félagsins. En það getur vel verið, að ég sé af „gamla skólanum“, og
verður þá svo að vera.
Með beztu kveðju og nýársóskum.
Yðar einl.
Richard Beck