Morgunblaðið - 16.05.2002, Side 34
LISTIR
34 FIMMTUDAGUR 16. MAÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ
LEIKRITIÐ Der totale Kick (Al-
gjört kikk), hefur í vetur vakið mikla
athygli frá því það var frumsýnt af
Stadtschauspiel Dresden (Þjóðleik-
húsið í Dresden) í nóvember sl.
haust. Þetta teldist tæplega til tíð-
inda hér uppi á Íslandi ef ekki væri
vegna þess að höfundurinn, Kristof
Magnússon, er íslenskur í aðra ætt-
ina, sonur Magnúsar Magnússonar
sem var sonur Magnúsar Þorsteins-
sonar stofnanda Sælgætisgerð-
arinnar Freyju. Móðir Magnúsar,
amma leikskáldsins, var Charlotte
Weitemeier, sem kom hingað frá
Þýskalandi ung stúlka og settist hér
að.
Góðar viðtökur
fyrsta leikritsins
Kristof Magnússon er fæddur og
uppalinn í Hamborg þar sem faðir
hans hefur verið búsettur frá því á 6.
áratugnum en hann giftist þýskri
konu og starfaði sem kennari við
unglingaskóla þar í borg, þar til hann
lét af störfum fyrir nokkru. Kristof
fæddist 1976 og stundar nám í leik-
ritun og öðrum skapandi skrifum við
Háskólann í Leipzig en hefur verið
við íslenskunám við Háskóla Íslands
frá því um síðustu áramót.
Hann segist munu verða hér við
nám framundir næstu jól en stefnir
að því að ljúka námi sínu í Leipzig á
fyrrihluta næsta árs en er þó jafn-
framt önnum kafinn við leikritaskrif
þar sem hann vinnur nú að þriðja
leikriti sínu.
„Ég lauk við að skrifa Der totale
Kick haustið 2000. Þetta er nánast
farsi, sem mörgu þýsku leikhúsfólki
þykir fyrir neðan sína virðingu að
skrifa eða taka þátt í. Leikritið hefur
þó fengið mjög góðar viðtökur og
stórblöðin þýsku eins og Frankfurter
Allgemeine Zeitung og Süddeutshe
Zeitung sáu ástæðu til að fjalla um
það. Það fékk sérstaklega góða um-
sögn gagnrýnanda Frankfurter
Allgemeine Zeitung og það hafði þau
áhrif að önnur leikhús hafa sýnt því
áhuga og framundan er uppsetning á
því hjá Horizont-leikhúsinu í Köln í
október í haust.“
Brjótast inn til gamallar konu
Leikritið var gefið út af Verlag der
Autoren í september árið 2000 og
það varð til þess að hjólin fóru að
snúast. „Þetta er einskonar umboðs-
og útgáfufyrirtæki höfunda og hand-
ritið fer ekki í almenna sölu heldur er
því dreift til leikhúsa og umboðs-
manna til kynningar,“ segir Kristof.
Í Algjöru kikki segir frá Anneke
21 árs og kærasta hennar Donald, 33
ára gömlum lækni. Þau eru mjög
ólík, hún þráir að hætta öllu til að fá
sem mest útúr lífinu á sem skemmst-
um tíma, fá algjört kikk; Donald er
afturámóti varfærinn smáborgari í
eðli sínu. Hún fær hann samt til að
taka þátt í innbroti á heimili Doroth-
eu, aldraðrar konu sem á einmitt af-
mæli á innbrotsdaginn. Svo óheppi-
lega vill til að í stað þess að vera að
heiman hefur Dorothea boðið vin-
konum sínum til afmælisveislu þann-
ig að innbrotið fer gjörsamlega úr
böndunum því Anneke og Donald
þurfa sífellt að binda og kefla fleiri
boðsgesti og áður en lýkur hafa
gömlu konurnar tekið stjórnina og
gert sér dælt við lækninn með ýmsa
kvilla sem eru að hrjá þær.
Það er greinilegt að Kristof Magn-
ússon hefur auga fyrir því skoplega í
umhverfinu því hann segist nú vera
að skrifa leikrit um samskipti nokk-
urra útkeyrðra eiginmanna sem hafa
leitað skjóls í sérstaklega útbúnu
hvíldarherbergi í stórmarkaði á með-
an eiginkonurnar sinna innkaupum.
„Ég get nú ekki sagt nánar frá
þessu leikriti þar sem ég er ekki bú-
inn með nema fyrsta þáttinn, en ég
er með ýmsar hugmyndir um hvern-
ig atburðarásin getur mögulega
þróast.“ Hann kveðst hafa séð litla
frétt í blaði um að í Bretlandi hefði
verið útbúið svona hvíldarherbergi í
stórmarkaði fyrir eiginmenn og hug-
myndin að leikritinu hefði kviknað í
kjölfarið. „Ég veit ekki hvort boðið er
uppá svona hvíld í stórmörkuðum í
Þýskalandi eða hér á Íslandi,“ segir
hann.
Aðalleikarinn var handtekinn
Þriðja leikritið sem Kristof hefur
skrifað nefnist Þröng í húsi og lík-
kistu og var sýnt fyrir ári af Volks-
bühne am Rosa Luxemburg Platz
þar sem leikhússtjórinn er Frank
Castorf, einn af þekktustu leik-
stjórum í Þýskalandi. „Leikhúsið réð
mig til að skrifa þetta leikrit og að-
stæður voru mjög sérstakar. Leik-
endur voru útigangsfólk í Berlín sem
var boðið að koma í leikhúsið og taka
þátt í leiksýningu. Æfingar voru með
mjög óhefðbundnu sniði þar sem
leikendur drukku ótæpilega og höfðu
hunda sína með sér. Eitt kvöldið
slapp einn af hundunum inn í annan
sal þar sem stóð yfir sýning á einu af
verkum Castorfs. Það olli miklu upp-
námi.
Sumir leikendanna sváfu í leikhús-
inu allan æfingatímann og viku fyrir
frumsýningu varð ég að umskrifa allt
verkið þar sem einn af aðalleikend-
unum lenti í fangelsi. En þetta var
skemmtileg reynsla.“
Kristof kveðst hafa notað tímann
hér á Íslandi vel til leikhúsferða og
kveðst hrifinn af ýmsu sem hann hafi
séð. Íslenskunámið á þó hug hans all-
an þessa dagana og er ekki að heyra
annað en hann hafi talað íslenskuna
frá blautu barnsbeini. „Ég byrjaði
ekki að tala íslensku fyrr en ég var
orðinn stálpaður þó ég skildi hana
alltaf svolítið. En ég hef alltaf komið
hingað reglulega, annað hvert ár og
stundum oftar og á marga vini og
ættingja hér sem mér finnst nauð-
synlegt að geta talað við á íslensku.“
Binda og kefla
aldraðar konur
Kristof Magnússon er þýskt leikskáld af íslensku faðerni sem vakið
hefur athygli í Þýskalandi í vetur. Hávar Sigurjónsson ræddi við
hann en Kristof stundar nám í íslensku við Háskóla Íslands í vetur.
havar@mbl.is
Morgunblaðið/Sverrir
Kristof Magnússon
Úr sýningu Borgarleikhússins í
Dresden á Der totale Kick eftir
Kristof Magnússon.
HÁVAR Sigurjónsson þarf varla
að kynna fyrir leikhúsáhugafólki
meðal lesenda Morgunblaðsins. Hér
skal einungis minnt á að fyrsta leik-
rit hans sem skrifað er fyrir leiksvið,
Englabörn, var frumsýnt hjá Hafn-
arfjarðarleikhúsinu í fyrrahaust. Ída
Kristjánsdóttir er ungur og efnileg-
ur myndlistarmaður. Hún tók m.a.
þátt í samsýningunni „Fyrsta“ í Ás-
mundarsal Listasafns ASÍ í ágúst
2001.
Hér tekst enn betur til að virkja
hugarflug myndlistarmannsins við
að skapa eina heild úr hinu sjónræna
og hljóðræna en í hinum tveimur ör-
verkunum sem flutt hafa verið í
þessari viku. Texti Hávars býður
upp á skýrt afmarkaða möguleika
sem Ída notar sem stökkpall til að
gefa ímyndunarafli sínu lausan
tauminn. Hún vinnur skipulega úr
efniviðnum og útkoman verður ein-
stök. Það sem útvarpshlustendur
sáu ekki en áhorfendur fengu að dást
að í grænmetisdeild Hagkaupa í
Skeifunni voru samansaumaðir
ávextir, samtengdir, úttroðnir af
andstæðum fæðutegundum – skipu-
legt „kaos“, afurð frjós hugar og
hagra handa. Að sjálfsögðu telst
bananahýði úttroðið af blóðmör vart
lystilegur matur, né þverskorin app-
elsína með skinkusneið saumaða yfir
sárið, en þetta var bein tilvísun í
textann þar sem ferskleika ávaxt-
anna er att gegn algerri andstæðu
sinni – unnum kjötvörum.
Verkið er súrrealísk fantasía fyrir
ávaxtasölukonu og tvo samkyn-
hneigða viðskiptavini. Textinn var
jafn ferskur og safaríkur og ávext-
irnir sem falboðnir voru. Það er
freistandi að leika sér að þeim mögu-
leika að leikurinn hefði orðið áhrifa-
ríkari ef leikstíllinn hefði verið meira
blátt áfram eins og oft á svo vel við í
fáránlegum aðstæðum. Einnig bar á
óöryggi í texta sem varla er fyrirgef-
anlegt í jafn örstuttu verki. Steinunn
Ólafsdóttir stóð sig firnavel eins og
fyrri daginn enda hefur hún til að
bera alveg stórkostlega rödd sem
nýtur sín vel í útvarpi. Kjartani
Bjargmundssyni og Valgeiri Skag-
fjörð tókst vel upp þó að ekki sé
hægt að segja að nokkur neisti hafi
kviknað milli þeirra í flausturslegum
faðmlögum og aðdraganda þeirra.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem
ávaxtadeild Hagkaupa í Skeifunni
hefur verið vettvangur framfara-
skrefa í íslenskri leiklist, fáum sem
sáu gleymist leikur Þóru Friðriks-
dóttur þar sem hún grét yfir appels-
ínustaflanum í mynd Kristínar Jó-
hannesdóttur Á hjara veraldar 1983.
Það er ánægjulegt að íslenskir lista-
menn halda huganum opnum um
möguleg tengsl á milli ferskleika
ávaxtanna sem fást þar og framsæk-
innar leiklistar.
„Ferskar und-
antekningar“
LEIKLIST
Útvarpsleikhúsið og Listahátíð
í Reykjavík
Höfundar: Hávar Sigurjónsson og Ída
Kristjánsdóttir. Leikstjóri: Ásdís Thorodd-
sen. Hljóðstjórn: Hjörtur Svavarsson.
Tæknimaður: Georg Magnússon. Leik-
arar: Kjartan Bjargmundsson, Steinunn
Ólafsdóttir og Valgeir Skagfjörð. Mið-
vikudagur 15. maí.
AF ÁVÖXTUNUM SKULUÐ ÞÉR
ÞEKKJA ÞÁ ...
Sveinn Haraldsson
HÖFUNDAR þessa verks eru
bæði ungir og upprennandi lista-
menn. Guðlaugur Valgarðsson mynd-
listarmaður fékk t.a.m. önnur verð-
laun í hugmyndasamkeppni sem efnt
var til í tilefni af Vetrarhátíð Reykja-
víkurborgar fyrir verkið Via Dolo-
rosa. Ragnheiður Gestsdóttir er einn
af þekktari barna- og unglingabóka-
höfundum íslenskum og hefur hlotið
verðlaun og viðurkenningar fyrir
skrif sín. Hún hlaut íslensku barna-
bókaverðlaunin árið 2000 fyrir bókina
Leikur á borði og nú síðast barna-
bókaverðlaun fræðsluráðs fyrir bók-
ina 40 vikur. Hún hefur líka fengist
við að myndskreyta bækur og var
þátttakandi í fjöllistahópnum Tema
Teater.
Aldur og ævi er einfalt í sniðum,
meitlað og sniðugt. Tvær manneskjur
eiga tal saman í strætisvagnaskýli.
Ólafur Darri Ólafsson leikur mann í
yngri kantinum sem hefur gaman af
því að kynnast lítillega unglegri og
frískri konu, sem hann telur eitthvað
yngri en sjálfan sig. Saga hennar
kemur honum verulega á óvart. Hún
segir af og frá að hún sé á hans reki,
hún sé á áttræðisaldri. Hún hafi fyrir
mistök og hugsunarleysi selt sál sína
djöflinum á göngu vestur í bæ vet-
urinn 1944 á leið af þrettándadansleik
á Borginni.
Hann trúir henni að sjálfsögðu ekki
en vill ekki minnka möguleika á frek-
ar kynnum með því að draga frásögn
hennar í efa. Endalokin, þegar ungur
maður birtist og fer með hana á brott
eftir að hún hafði tekið loforð af við-
mælanda sínum í strætisvagnabið-
skýlinu að hugsa um köttinn sinn fyr-
ir sig koma honum því verulega á
óvart.
Til að koma í veg fyrir að vorvind-
arnir feyktu tilsvörum leikaranna út í
veður og vind voru útvarpsmenn með
töluverðan viðbúnað, mögnuðu upp
raddir þeirra sem hljómuðu úr hátöl-
urum sem staðsettir voru á bak við
limgerði. Það var töluvert sérstakt að
fylgjast með Ólafi Darra og Kolbrúnu
Önnu tala saman inni í skýlinu, hand-
an glerveggjar og heyra svo raddir
þeirra óma að baki sér. Það var eins
og að horfa á fólk á sjónvarpsskjá en
hljóðið kæmi úr annarri átt. Að sjálf-
sögðu var samtal þeirra tekið upp í
þessu lokaða rými til að forða því að
drukkna í umferðarhávaðanum. Leik-
ur þeirra beggja var vel út færður og
trúverðugur. Ólafur Darri var í ess-
inu sínu, dansaði í kringum Kolbrúnu
Önnu eins og köttur kringum heitan
graut. Það má nefna það að hann er
eini leikarinn hérlendur sem bæði
hefur fengið að áreita fólk í biðskýli
og strætisvagni í leikverki, en vorið
1998 lék hann í einleiknum Nóttin
skömmu fyrir skógana eftir Bernard-
Marie Koltés sem var leikið í stræt-
isvagni á ferð. Kolbrún Anna er mjög
efnileg leikkona, geðug og skýrmælt.
Hún var einn af stofnendum Dans-
leikhúss með ekka og hefur aðallega
starfað innan þess. Gunnari Hanssyni
brá fyrir í lokin í hlutverki unga
mannsins/kölska, en hans hlutur í
verkinu fór fyrir ofan garð og neðan
þar sem Hafnarfjarðarvagn nr. 140
skyggði töluvert á hans hlut og enda
verksins. Það var samt auðvelt að
geta sér þess til hvert ferð þeirra
skötuhjúa var heitið.
Þetta sýnir og sannar að það er
ekki á vísan að róa að leika í Lækjar-
götunni, hvert smáatriði þarf að
ganga upp svo að verkið nái tilætl-
uðum áhrifum. En það var gaman að
verkinu, það var aðgengilegt, sniðugt
og vel útfært, textinn liðugur og vel
úthugsaður.
Ung að eilífu?
LEIKLIST
Útvarpsleikhúsið og Listahátíð
í Reykjavík
Höfundar: Guðlaugur Valgarðsson og
Ragnheiður Gestsdóttir. Leikstjóri:
Harpa Arnardóttir.
Hljóðstjórn: Hjörtur Svavarsson.
Tæknimaður: Georg Magnússon. Leik-
arar: Gunnar Hansson, Kolbrún Anna
Björnsdóttir og Ólafur Darri Ólafsson.
Þriðjudagur 14. maí.
ALDUR OG ÆVI
Sveinn Haraldsson
OSMO Vänskä hreppti á dögunum
hljómsveitarstjóraverðlaun Royal
Philharmonic Society í London.
Þetta eru mikils
metin verðlaun,
og virt langt út
fyrir breska land-
steina. Frá því
Osmo Vänskä
hætti störfum
með Sinfóníu-
hljómsveit Ís-
lands hefur hann
verið aðalstjórn-
andi sinfóníu-
hljómsveitar BBC í Skotlandi, sem
einnig fékk verðlaun sem besta sin-
fóníuhljómsveitin. Það sem vakti
mesta athygli við verðlaunaveit-
inguna var, að aldrei áður í sögu
Royal Philharmonic Society hefur
stjórnandi og hljómsveit hans hreppt
verðlaun samtímis. Osmo Vänskä
hefur þótt ná undraverðum árangri
með hljómsveitina á þeim sex árum
sem hann hefur stjórnað henni, og
rifið hana upp í það að verða ein af
bestu sinfóníuhljómsveitum Evrópu.
Osmo Vänskä kveður BBC sinfón-
íuhljómsveitina í Skotlandi í haust,
því hann hefur gert samning við Sin-
fóníuhljómsveitina í Minneapolis í
Minnesota í Bandaríkjunum, og
verður aðalstjórnandi þeirrar hljóm-
sveitar næstu árin. Eftir sem áður er
hann líka aðalstjórnandi Sinfóníu-
hljómsveitarinnar í Lahti í Finn-
landi.
Tónlistin á að opna eyru okkar
Í viðtali við dagblaðið Financial
Times á föstudag segir Osmo, spurð-
ur hvernig hann hafi farið að því að
ná þeim árangri sem honum hefur
auðnast, að það sé mikilvægt að
muna að í tónlist sé aldrei hægt að
ganga að hlutunum vísum.
„Það sem gerir tónlistina svo stór-
kostlega er það hve erfið hún er. Ég
er þeirrar skoðunar að maður geti
ekki náð góðum árangri nema með
því að leggja hart að sér og vinna vel.
Það eru alltaf einhverjir í hljómsveit-
inni sem halda að þeir þekki verkin
nógu vel strax, og spyrja sig að því
hvers vegna ég sé að segja þeim
hvernig þeir eigi að spila þau. En er
maður alltaf viss um að næsti maður
sé alveg sammála manni um túlkun?
Er maður viss um það að maður sé
að spila nákvæmlega það sem tón-
skáldið ætlaðist til? Verst er þegar
við teljum okkur vita fyrirfram
hvernig hlutirnir eiga að ganga fyrir
sig. Við höfum öll komið okkur upp
alls konar venjum og kækjum, en við
verðum að vera auðmjúk gagnvart
tónlistinni og ganga að henni þannig
að hún opni eyru okkar.
Ég hef heldur ekkert verið of upp-
tekinn af því að fá bestu spilarana í
hljómsveitirnar mínar; það sem
skiptir meira máli fyrir mig er að ná
hundrað prósent árangri hjá því fólki
sem í þeim spilar.“
Osmo Vänskä heiðraður
Osmo Vänskä