Morgunblaðið - 12.11.2004, Side 58

Morgunblaðið - 12.11.2004, Side 58
58 FÖSTUDAGUR 12. NÓVEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ MENNING LEIKRIT Jónasar Árnasonar lifa með þjóðinni enda ekki skrýtið þar sem í þeim er tekið á þjóðareðlinu á gamansaman hátt og alltaf með ádeilu í bland. Fyrr í haust frum- sýndi Leikfélag Hveragerðis Þið munið hann Jörund og nú er það Járnhausinn á Skaganum sem er sýndur með glæsibrag. Verk Jón- asar eru misjöfn en vel gerð, með lif- andi persónusköpun og síðast en ekki síst eru þau skreytt með vel ortum kvæðum. Við flest verka Jón- asar er tónlistin eftir Jón Múla og hún ekki af verri endanum. Járnhausinn var fyrsta sýning Skagaleikflokksins sem heldur nú upp á þrjátíu ára afmælið með því að setja verkið upp aftur. Leikflokk- urinn fékk Helgu Brögu Jónsdóttur til að leikstýra en hún lék einmitt sitt fyrsta hlutverk með flokknum en það var Lína Langsokkur í upp- færslu 1979 eins og kemur fram í stórglæsilegu afmælisriti sem er gefið út í tengslum við sýninguna. Þar kemur fram að Járnhausinn sjálfur er verndari félagsins og er það vel til fundið. Jónas Árnason tengdist Skagaleikflokknum og lék með þeim og ómetanlegur sá heiður sem minningu hans er sýnd. Járn- hausinn er kannski ekki besta verk þeirra bræðra en gott engu að síður. Það fjallar um uppgang síld- arspekúlants í litlu plássi, um græðgina í að byggja verksmiðju með erlendu fjármagni, um áhrifa- girni og skammtíma gróðahyggju bæjaryfirvalda og verkafólks sem lætur blekkjast af miðilsfundum og erfiða baráttu bænda gegn sölu landsins auk þess sem ástin kraum- ar. Verkið er ekki síður viðeigandi nú en fyrir þremur áratugum og tekst hópnum vel að koma ádeilunni til skila. Það er því mikill óþarfi og sýningunni til vansa að setja inn nú- tímalegar talmálssetningar og vísa til samtímans eins og með Grund- artangaverksmiðjunni. Tónlistin í verkinu er alveg dásamleg og ljóm- andi vel flutt en þarna eru sígild lög eins og Undir Stórasteini, Án þín og Aukavinna auk margra annarra kunnuglegra. Mikið er um skemmti- leg dansatriði í sýningunni og aug- ljóst að danshöfundur og leikstjóri hafa unnið vel saman. Lifandi tónlist er flutt af fjögurra manna hljómsveit á sviðinu og gefur það skemmtilegan blæ. Leikmyndin er mjög einföld í sniðum, nokkrar síldartunnur og kassar en tölvumyndum og ljós- myndum er varpað á vegg til að sýna bakgrunninn. Leikararnir eru tutt- ugu og þrír og hefur Helga Braga haft góða tilfinningu fyrir rýminu sem er vel nýtt. Sýningin rennur mjög vel og aldrei dauður punktur auk þess sem lýsingin er prýðilega gerð. Nokkrar eftirminnilegar persónur eru í sýningunni en Helga Braga hefur unnið einna best og nákvæm- ast með persónusköpun. Það var gaman að sjá Garðar Geir Sig- urgeirsson rúlla upp hinum sjálf- umglaða og yfirborðslega Eyvindi grúti og Steingrímur Guðjónsson naut sín vel í hlutverki ruglaða prestsins. Þórdís Ingibjartsdóttir var einkar örugg og söng vel í hlut- verki Gullu Maju og Valgeir Sig- urðsson var afar sannfærandi sem gleði- og gáfumaðurinn Páll Sveins- son stud. theol. Bóndinn Vala rauða var mjög vel leikin af Erlu Gunn- arsdóttur og greinilegt hvernig leik- stjórinn hefur ýtt henni út á ystu nöf í tröllslegum háttum kerlingarinnar. Sama hugrekki leikstjórans mátti greina í vinnu hennar með Sóleyju Bergmann Kjartansdóttur sem var að leika sitt fyrsta hlutverk þótt ótrúlegt sé. Hún lék ritstjórann Andreu en sú leið var farin að breyta karlhlutverkum ritstjórans og bæj- arstjórans í kvenhlutverk. Sóley glansaði í hlutverki sínu; einkum þegar trúðsleikurinn var upp á sitt besta, án þess þó að fara nokkurn tíma út úr hinni fínlegu snobbkerl- ingu. Sóley og Garðar voru auk þess óborganlegt par. Ég óska Skaga- leikflokknum til hamingju með góða afmælissýningu og augljóst að leikfélagið getur hlakkað til fram- tíðar með svo efnilega leikara og sterkt fólk sem stendur að starfsem- inni. LEIKLIST Skagaleikflokkurinn Járnhausinn Höfundar: Jónas Árnason og Jón Múli Árnason. Leikstjóri: Helga Braga Jóns- dóttir. Tónlistarstjóri: Flosi Einarsson. Danshöfundur: Jóhanna Árnadóttir. Lýs- ing: Hlynur Eggertsson. Búningar: Stein- unn Björndóttir. Grafík: Garðar Jónsson. Sýning í Bíóhöllinni, 5. nóvember 2004. Hrund Ólafsdóttir F erðir flestra í leikhúsið eru oftast með svipuðu sniði. Maður kaupir sér miða, mætir stuttu áður en sýning hefst um kvöld, uppábúinn, fer í fatahengið, kaupir sér ef til vill gotterí og gengur í salinn. Situr síðan í salnum ásamt nokkur hundruð manns og fylgist með sýningunni – lætur töfra leik- hússins svipta sér af gólfinu. Fer stundum að hlæja, stundum að gráta, stundum leiðist manni jafnvel svo að maður sofnar! Yfirleitt, að minnsta kosti þegar vel er gert, gengur maður samt út með þá tilfinningu að maður hafi upplifað eitthvað nýtt, oft töfrum líkast. Að maður hafi ekki bara heim- sótt leikhúsið, heldur annan heim. Ásamt stórum hópi fólks úr fé- lagsmiðstöðinni Gerðubergi, margir hverjir eldri borgarar, fengu blaða- maður og ljósmyndari Morgunblaðs- ins tækifæri til að upplifa nýja sýn á leikhúsið. Skyggnast baksviðs í bók- staflegri merkingu og svipta hulunni af ýmsum töfrabrögðum. Töfrað með tækninni Hópurinn, um 70 manns, bíður í anddyri Borgarleikhússins laust fyrir kl. 14. Margir, þar á meðal blaðamað- ur, hafa búið sig upp á, enda gamall og góður siður þegar í leikhús er haldið. Fljótlega kemur til móts við okkur Guðjón Pedersen leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur og býður alla velkomna. „Í sölunum er oft dimmt, þannig að við skulum ekki fara of hratt yfir og fara varlega,“ segir hann og síðan er haldið á vit fyrsta salarins, Nýja sviðsins. Þar er við æfingar hóp- ur 15 ungra fiðlustúlkna frá Akranesi, sem halda tónleika þá um kvöldið. Guðjón segir lauslega frá þeirri listrænu stefnu sem einkennir Nýja sviðið og óskar síðan eftir að fólkið fái að heyra eitt fiðlulag. „Eigum við að gefa okkur það að við förum ekki úr salnum fyrr en þær hafa spilað fyrir okkur,“ segir hann og stúlkurnar leika fjörlegt lag við góðar und- irtektir og mikla ljósasýningu. Á eftir bendir Guðjón fólki á hvernig hægt er að skapa andrúmsloft með ljósum. „Stór hluti galdursins, fyrir utan leik- arann sjálfan, er fólginn í tækninni,“ segir hann með réttu. „Ég er með bréf upp á það!“ Í stað þess að ganga aftur út úr salnum eins og venjulega er gert er nú haldið upp á svið. Þaðan liggur leiðin inn á smíðaverkstæði og leik- munageymslur Borgarleikhússins. „Þó svo að margir haldi því fram að við sem vinnum í leikhúsi gerum það vegna þess að við þorum ekki út í raunveruleikann er það nú samt þannig að við vinnum mjög praktískt hérna,“ segir Guðjón og tekur upp lít- ið hús sem minnir helst á dúkkuhús. Í ljós kemur að þetta er módel af leik- myndinni fyrir Línu Langsokk og slíkt módel lagt til grundvallar að langflestum sýningum leikhússins. „Hérna er leiksýningin öll í raun búin til, áður en hún flyst inn á sviðið.“ Það er margt sem fyrir augu ber á verkstæðinu og vekur áhuga gest- anna. Þar er slá með fötum, öllum bleikum. Þar er stór steinn, sem reynist síðan vera svo léttur að Guð- jón á auðvelt með að lyfta honum hátt yfir höfuð sér. Þar hangir stórt fiðr- ildi uppi á vegg. Þar eru allir hlutir á hjólum, og síðan er þar úrval verk- færa eins og á fullkomnasta smíða- verkstæði. „Ég vil fá vinnu hérna,“ segir maður nokkur í gríni. „Ég er með bréf upp á það!“ Guðjón biður hann vinsamlegast að mæta strax í fyrramálið. Ranghalar og Vesturfarar Förinni er haldið áfram, gegnum sali og ganga. Allt í einu stendur hóp- urinn baksviðs á Stóra sviði Borgar- leikhússins. Þar er verið að fylgjast með bíómynd í tengslum við und- irbúning sýningar, og menn fara sér því hljótt og flýta sér í gegn. Sem leið liggur gegnum almenning leikaranna, kaffistofu og búnings- herbergi er haldið inn ranghala inn á hið hringlaga Litla svið, sem að bygg- ingu er talið líkjast mjög leikhúsi Shakespeares, Rósinni. Fólk á almennt erfitt með að átta sig á í hvaða höfuðátt er verið að ganga. Að minnsta kosti eru bæði blaðamaður og ljósmyndari orðin hálfvillt og átta sig engan veginn á hvar Morgunblaðshúsið er, þótt það standi hinum megin við götuna. „Það er afskaplega auðvelt að villast í þessu húsi,“ segir Guðjón fólkinu til hughreystingar. Og í öruggum hönd- um starfsmanna er svosem ekkert að óttast. Borgarleikhússtjórinn situr nú fyrir svörum, og fær margvíslegar spurningar. Margir koma á framfæri þeirri beiðni að sýningar hefjist fyrr á kvöldin, jafnvel um miðjan dag. Guð- jón tekur öllum spurningum af áhuga. Ferð okkar um húsið lýkur á 3. hæðinni, þar sem kaffi og meðlæti bíður gestanna. Þórhildur Þorleifs- dóttir kemur síðan og segir fólki frá bakgrunnsrannsóknum sínum fyrir jólaverk Borgarleikhússins, sem er byggt á Vesturfarasögum Böðvars Guðmundssonar, Híbýli vindanna og Lífsins tré. Heimsókninni lýkur með því að gestirnir þakka fyrir sig með söng. Vinabandið flytur tvö lög, Nú máttu hægt um heiminn líða og Vorgyðjan svífur. Ánægjulegri en óvenjulegri för að þessu sinni í leikhúsið er lokið. Óvenjuleg för í leikhúsið Í Borgarleikhúsinu stendur hópum leikhús- gesta til boða að kynnast lífinu í leikhúsinu að tjaldabaki. Inga María Leifsdóttir og Kjartan Þorbjörnsson slógust í hóp fólks sem skoðaði húsið í fylgd Guðjóns Pedersens leikhússtjóra. Módel af leikmyndinni fyrir Línu Langsokk. Notkun módela við undirbún- ing leiksýninga er afar algeng. „Við vinnum mjög praktískt hérna.“ Gestir fylgdust af áhuga með umfjöllun Þórhildar Þorleifsdóttur um Vest- ur-Íslendinga. Þórhildur leikstýrir jólasýningu Borgarleikhússins. Morgunblaðið/Golli Guðjón Pedersen, leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur, sveipaður töfrabirtu leikhússins. ingamaria@mbl.is

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.