Morgunblaðið - 15.04.2005, Side 28

Morgunblaðið - 15.04.2005, Side 28
28 FÖSTUDAGUR 15. APRÍL 2005 MORGUNBLAÐIÐ VIGDÍS FINNBOGADÓTTIR 75 ÁRA D álítið bleikt reiðhjól og barnakerra eru við ann- an innganginn en blómaker við hinn, ég veðja á blómakerið og hringi dyrabjöllunni. „Ekki skella hurðinni – takk“ stendur á miða með litlum broskalli í rúðunni. „Þessi kona á betra skilið af mér og öllum almennilegum Ís- lendingum en þeir skelli hjá henni hurðum,“ hugsa ég um leið og frú Vigdís Finnboga- dóttir, fyrrverandi forseti Íslands, opnar dyrnar á heimili sínu á Aragötu 2. Hún býður mér í bæinn. „Er hurðin eitthvað biluð?“ segi ég og fer úr kápunni. „Nei, en það eru börn í húsinu sem geta vaknað við hurðaskelli,“ svarar Vigdís og hengir upp kápuna mína. Það upplýsist þar með að þetta er hús þriggja ættliða, auk Vig- dísar búa í húsinu Ástríður, dóttir hennar, og Eggert Þórarinsson tengdasonur og dætur þeirra tvær, þær Aþena Vigdís og Eva María. „Við segjum stundum að það búi fjórir ætt- liðir í húsinu, hér er svo mikið af munum frá foreldrum mínum,“ segir Vigdís. Foreldrar hennar, frú Ásta Sigríður Eiríksdóttir hjúkr- unarkona, og Finnbogi Rútur Þorvaldsson, verkfræðingur og prófessor, byggðu þetta hús árið 1959 og bjuggu þar alla sína tíð eftir það. Ráðstefna til heiðurs Vigdísi í Háskóla Íslands Hljótt er í húsinu þessa morgunstund, klukkan enda ekki nema rétt tíu á gifting- ardegi þeirra Karls Bretaprins og Camillu Parker Bowles. „Ég vona að ég sé ekki að trufla þig, þú vilt kannski sjá giftingu þeirra Karls og Camillu á eftir,“ segi ég. „Nei, blessuð vertu, en ég vona að þetta gangi vel hjá Karli, hann er besti drengur, ég var reyndar í brúðkaupi hans og Díönu, þá naut ég góðs af áhuga móður minnar á kónga- fólki, ég sat við hliðina á Nancy Reagan og gat sagt henni ýmis deili af evrópska kóngafólk- inu, hún var ekki svo kunnug þessu frá Banda- ríkjunum,“ svarar Vigdís og býður mér sæti í sófa í glæsilegri setustofu sinni. „Ég þarf að hringja eitt símtal áður en sam- tal okkar hefst,“ segir hún og fer „upp á dekk“ eins og hún nefnir skrifstofu sína samkvæmt gamalli hefð heimilisins. Fyrr en varir er hún farin að ræða við Steinunni Sigurðardóttur sem á sínum tíma ritaði bók um Vigdísi. Stein- unn er einn ræðumanna á hátíðarkvöldverði tengdum ráðstefnunni; Samræður menningar- heima, sem stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum heldur í Háskóla Ís- lands til heiðurs Vigdísi vegna 75 ára afmælis hennar nú 15. apríl. Síst virðist ofgert þótt Vigdís sé heiðruð með þessum hætti, svo mjög sem hún hefur kynnt Ísland meðal annarra þjóða, fyrst kvenna heimsins kosin forseti lýðræðisríkis. En hvers vegna hún? Hvað skyldi það vera sem ýtir slíkri atburðarás af stað? Ólst upp á traustu og öruggu heimili „Það sem á undan manni er komið er svo óskaplega mikilvægt í lífinu. Minningarnar um foreldrana og umhverfið í bernsku, vitneskjan um það sem enn áður hefur gerst, allt er þetta þýðingarmikið,“ segir Vigdís. Hún kveðst hafa alist upp á mjög öruggu og traustu heimili. „Þó er ég alin upp af móður sem vann úti, hún kenndi í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og í Kvennaskólanum. Við vorum tvö systkinin. Bróðir minn Þorvaldur var einu og hálfu ári yngri en ég og við vorum ákaflega samrýnd. Það var þungt áfall þegar við misstum hann af slysförum 21 árs gamlan. Þá var ekki búið að finna upp áfallahjálp, fólk þagði um sorgina og komst þess vegna illa yfir hana. Foreldrar mínir gerðu miklar kröfur til mín. Báðir foreldrar mínir voru mikið tilfinn- ingafólk, þau höfðu kynnst í Kaupmannahöfn þar sem þau voru í námi, hann í verkfræði, hún í hjúkrun. Við mamma vorum jafnan góðar vinkonur, hún var mikil framúrstefnukona, hún frú Sig- ríður, og fylgdi eftir sínum hugðarefnum. Það get ég sagt mér til hróss að það er í mér seigla – mér finnst ég ekki búa yfir neinum sér- stökum hæfileikum að öðru leyti en því að ég hef seiglast áfram.“ Heimur trúar og Íslendingasagna „Ég fæddist að Tjarnargötu 14, þar sem foreldrar mínir leigðu þá hjá Ólafi Lárussyni háskólaprófessor og konu hans Sigríði Magn- ússdóttur. Þau hjón voru svo undur góð við mig. Ég fékk oft að heyra að ég hefði verið þægt og vært barn. Mamma var formaður Líknar, félags um heimahjúkrun, og því stjórnaði hún heiman frá sér. Ég var smástelpa þegar ég lærði að taka á móti símtölum frá læknum í Reykjavík sem voru að biðja um að send væri hjúkr- unarkona t.d. til að setja sjúklingi stólpípu eða bakstur á lungnabólgusjúkling. Mamma var heimavinnandi í orðsins fyllstu merkingu, bæði vann hún heimilisstörfin og svo var hún auk þessa formaður Hjúkrunarkvennafélags- ins. Þessu stjórnaði hún öllu heiman frá sér. Síðar fór hún að kenna, ég var komin með lyk- il um hálsinn þegar ég var tíu ára. Foreldrar mínir vildu að ég menntaðist en ég átti mína drauma, ég vildi fara eitthvað burt, verða skipstjóri og sjá heiminn. Svo var mér sagt að stelpur gætu ekki orðið skip- stjórar, það voru mér ægileg vonbrigði. Bróðir minn var aftur raunvísindamaður í sér, mikill stærðfræðingur og skákmaður. Hann var inn- ritaður í Manchester í atómverkfræði þegar hann dó. Hann var gullfallegur og mjög skemmtilegur. Ég gætti hans afskaplega vel þegar við vorum börn, ég hafði lykilinn, ekki hann. Þegar ég lít til baka sé ég að líf okkar var öruggt og gott fram að láti hans. Við vorum alin upp við að börn ættu ekki að trana sér fram. Ef einhver lét mikið á sér bera var sagt á heimilinu: „Sá er nú ekki að biðja afsökunar á sjálfum sér.“ Þetta uppeldi olli því að ég þurfti að taka á til að segja það sem mér bjó í brjósti t.d. í fé- lagslífinu í menntaskólanum og jafnvel síðar í lífinu. Ég átti mín barnaskólaár í Landakotsskóla eins og mamma á sínum tíma. Þar var gott að vera, þar jókst mér víðsýni. Föðurfólk mitt var stranglúterskt og ég var alin upp í þeirri trúrækni, en í Landakotsskóla kynntist ég öðrum sjónarmiðum og þar var okkur leyft að koma klukkutíma áður en kennsla hófst til þess að föndra, búa til ýmsa hluti og svo var mikil hannyrðakennsla. Loks var ákaflega góð kennsla þar í íslensku, fröken Guðrúnu á ég og margir aðrir nemendur að þakka að hafa leitt mig inn í heim Íslendingasagna. Að vísu átti ég þann heim líka heima hjá mér. Afi minn, séra Þorvaldur Jakobsson, bjó hjá okk- ur, hann var mikill íslenskumaður og ég ræddi oft um Íslendingasögurnar við föður minn, hann leit á þær sem mikinn skáldskap, hann var hændur að bókmenntum, hann hafði alltaf á náttborðinu hjá sér þrjár bækur, Shake- speare, eina Íslendingasögu og eina barnabók. Hann las þó ekki fyrir okkur, hann sagði okk- ur á sinn hátt þær sögur sem hann var að lesa. Það var mamma sem las fyrir okkur. Mínar uppáhaldssögur voru sögur H.C. Andersen, mér þótti t.d. afskaplega gaman að Svínahirð- inum. Mér fannst það lærdómsrík saga – að maður ætti ekki að vera drambsamur. Ég las raunar allt sem ég komst yfir og fannst gríðarlega gaman að sagnaheiminum, þar sem verið var að lýsa manneskjunni – hvernig hún kemst af í allra handa volki. Oft var í sögum sagt frá telpum sem voru að leita í stórum skógi að einhverju, ég gat afar vel samsamað mig þeim, ég var alltaf að leita að einhverju. Ég var alin upp á stríðsárunum, við skulum ekki gleyma því.“ Stríðið hafði mikil áhrif á æskuheimili mitt Hafði stríðið mikil áhrif á daglegt líf fólks hér á Íslandi? „Á okkar líf alltént. Foreldrar mínir höfðu bæði verið mikið erlendis, faðir minn við nám og ferðalög og mamma hafði unnið í Þýska- landi, hún vann sem hjúkrunarkona í Berlín á verðbólgutímunum og þurfti að hafa stóra tösku til að setja seðlana í þegar hún fékk út- borgað. Þaðan fór hún svo til starfa á sjúkra- hús í Austurríki. Foreldrar mínir voru því bæði vel kunn Evrópu, það var Evrópukort Ein af oss – en Það þóttu mikil tíðindi árið 1980 þegar Íslendingar kusu konu sem forseta lýðveldisins. Nú er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, 75 ára. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við Vigdísi um lífshlaup hennar – æskuminningar, skólaár, nám og hin viðamiklu störf hennar í þágu okkar Íslendinga, en í sextán ár var hún forseti vor. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Leikhúsgangan 10. maí 1975 til að minna á hús- byggingarsjóð Leikfélags Reykjavíkur. Vigdís og Þorvaldur bróðir hennar 1949, árið sem Vigdís varð stúdent. Frú Sigríður Eiríks- dóttir með börn sín Vigdísi og Þorvald árið 1937.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.