Réttur - 01.01.1959, Page 12
12
E É T T U R
Hann hafði fulla ástæðu til að vera ánægður með verk sitt.
Strax eftir stríðslok var kjarnorkustofnun sett á laggirnar með
það fyrir augum að samhæfa allar tilraunir með kjarnorku. For-
stjóri stofnunarinnar var skipaður sá maður sem mest var að
þakka þekking vísindanna á tengiviðbrögðum. Fyrsta sporið var
stigið innfyrir tjald nýrrar aldar.
Sem forstjóri kjarnorkustofnunarinnar átti Joliot-Curie sæti í
atómnefnd Sameinuðu þjóðanna. Honum var það ekki sársauka-
laust að komast að raun um það hvernig stjórnmálamenn hugsa.
Vonir mannkynsins höfðu verið miklar þegar sigrazt var á þýzka
hernaðarandanum, aðeins fáein ár voru liðin síðan barizt var, ýmist
á vígvelli eða í svartnætti hernáms, gegn óvini mannkynsins. Þó
lifnaðarhættir manna og hugsanir væru ólík þráðu þeir sameig-
inlega varanlegan frið.
Og nú? Þessar miklu vonir hafði kalið í stormi kalda stríðsins
sem virtist vera forboði nýrrar heimsstyrjaldar. Gat viðkvæmt
hjarta og hugsandi heili verið hluttekningarlaus andspænis
slíkri hættu?
80000 mannslífum hafði sprengjan í Hírósíma útrýmt. Ostjórn-
legum krafti hafði verið beitt til eyðileggingar í staðinn fyrir að
hagnýta hann í þágu mannkynsins. Slíkur var ekki draumurinn
í Stokkhólmi.
Eðlisfræðingurinn vinnur með mælanlegum stærðum, en þessi
vísindamaður fann einnig til hins ómælanlega þunga samvizk-
unnar, auk þess var hann maður framkvæmda.
Mannkynið var komið inn á hliðarspor. Hann sá af skarp-
skyggni sinni bæði tindinn og hyldýpið. Hann vissi að eftir þetta
hlutu styrjaldir að breyta um svip. Hann vissi að sumar afleiðing-
ar kjarnorkustríðs voru ósýnilegar fyrr en eftir nokkur ár en birt-
ust þá í fæðingu vanskapaðra barna, kannski í milljónatali, eyði-
leggingu uppskeru jarðar og óþekktum sjúkdómum. Hann gat
líka hugsað sér gullöldina sem á einni mannsævi væri þess um-
komin að breyta eyðimörkum í akra, flytja fjöll, ráða veðri, upp-
ræta ólæknandi sjúkdóma og takmarka strit manna. Kjarnorkan
getur breytt jörðinni í helvíti eða paradís.