Andvari - 01.01.1989, Page 10
8
PÁLL THEODÓRSSON
ANDVARI
kennslu næstu tvö ár en var ráðinn framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs
ríkisins 1949. Með breytingu á háskólalögum vorið 1957 var stofnað
prófessorsembætti í eðlisfræði og komið á fót rannsóknastofu til mæl-
inga á geislavirkum efnum. Þorbjörn var ráðinn í stöðuna sama haust
og jafnframt settur forstöðumaður hinnar nýju rannsóknastofu, sem
nokkru síðar hlaut nafnið Eðlisfræðistofnun Háskólans. Þorbjörn átti
mikinn þátt í að Raunvísindastofnun Háskólans var sett á laggirnar
1966, var meðal annars formaður byggingarnefndar hennar. Hann
varð fyrsti forstöðumaður Eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar og
gegndi því starfi til 1975. Hann hafði mikil áhrif á hina gagngeru
uppbyggingu kennslu í verkfræði og raungreinum við Háskólann á
þessum árum.
Vísindarannsóknir Þorbjörns spanna mjög breitt svið, enda var
hann fljótur að setja sig inn í ný verkefni, einstaklega laginn að finna
álitleg en viðráðanleg viðfangsefni og fundvís á einfaldar lausnir.
Hann átti frumkvæðið að mörgum rannsóknaverkefnum, kom mörg-
um þeirra vel á veg en fól þau síðan yngri mönnum. Hann var fyrsti
formaður Eðlisfræðifélags íslands og gegndi því starfi í tvö ár. Síðar var
hann kosinn heiðursfélagi þess, enda oft nefndur faðir íslenskra eðlis-
fræðirannsókna.
Þorbjörn sagði starfi sínu við Háskólann lausu 1984, en um nokk-
urra ára skeið mun sjúkdómur sá, sem dró hann til bana, hafa dregið
nokkuð úr starfsþreki hans. Hann hélt þó áfram rannsóknum við
Raunvísindastofnun og miðlaði þar öðrum af þekkingu sinni og
reynslu.
A sjötugsafmæli Porbjörns 1987 var hann heiðraður með úgáfu
bókar, / hlutarins eðli, sem er safn greina eftir fjölmarga samstarfs-
menn hans og endurspeglar hún vel hið umfangsmikla og árangursríka
starf Þorbjörns.
Hér verður saga brautryðjandans rakin nokkuð á kostnað sögu
vísindamannsins. Til að lýsa vísindarannsóknum Þorbjörns, sem
spanna mjög breitt svið, þarf meira rými en hér gefst og ítarlegri
athugun. Vonandi verður sú saga rakin síðar á verðugan hátt af þeim
sem best þekkja til í hverri sérgrein.