Andvari - 01.01.1989, Page 14
12
PÁLL THEODÓRSSON
ANDVARI
nemendur héldu og umræðum sem þeim fylgdu. Þorbjörn sagði eitt
sinn frá námsárum sínum í Kaupmannahöfn á fundi í Eðlisfræðifélagi
íslands. Þar lýsti hann hvernig Bohr hefði sneitt hjá flóknum útreikn-
ingum, því svo var sem hann hugsaði ekki í formúlum heldur lögmál-
um. Aðalkennari Þorbjörns, Christian Möller, var hinsvegar mikill
stærðfræðingur og beitti stærðfræðinni af fullum þunga við lausn verk-
efna. Síðasta námsár sitt vann Þorbjörn undir leiðsögn Möllers að
kennilegum útreikningum á kröftum milli kjarneinda.
í námi sínu fékk Þorbjörn bæði trausta fræðilega þekkingu og góða
þjálfun í tilraunavinnu. Var hann alla tíð nokkuð jafnvígur á báða
þessa grunnþætti og þótt prófritgerðin hafi verið á fræðilega sviðinu
vann hann mikið að tilraunum í náminu. Hringhraðallinn var, eins og
að framan var getið, öflugasta tæki stofnunarinnar, en bilanir voru
tíðar og það krafðist mikillar útsjónarsemi og þolinmæði að fá hraðal-
inn til að vinna sem skyldi. Þegar ég var þar við nám um áratug síðar
fóru enn sögur af þessum einstæða pilti, sem vann svo æðrulaust innan
um bera rafspennuþræði, að um hann var sagt að „Sigurgeirsson skal
have sine tre elektriske faser hver dag“.
í tilraunavinnunni höfðu nemendur nokkuð frjálsar hendur um val á
verkefnum. Þorbjörn fékkst allmikið við að kanna geislavirk efni, sem
voru framleidd í hringhraðlinum. Á þessum tíma voru flest vísindaleg
mælitæki smíðuð á rannsóknastofunum. Til að geta mælt geislavirk
efni urðu nemendur að læra að búa til geigerteljara og þau rafeinda-
tæki, sem þeim fylgdu. Fyrsta greinin, sem Þorbjörn var meðhöfundur
að, var lýsing á einfaldara deilistigi en áður þekktist, en deilistig er
rafeindarás sem gefur frá sér einn púls fyrir hverja tvo sem inn koma.
Þorbjörn var enn í námi þegar þessi grein var skrifuð.
Auk rannsókna á geislavirkum efnum, sem framleidd voru með
hraðlinum, fékkst Þorbjörn einnig við að mæla náttúruleg geislavirk
efni. Það hafði lengi vafist fyrir vísindamönnum að mæla helmingun-
artíma RaC", efnis sem er aíkomandi radíns, vegna þess hve skammur
þessi tími er, menn vissu aðeins að hann var styttri en þúsundasti hluti
úr sekúndu. Prófessor J. C. Jacobsen, kennari Þorbjörns, hafði lengi
glímt við þetta erfiða viðfangsefni. Þorbjörn fann lausn á vandanum,
almenna lausn sem síðan hefur verið beitt við f jölmörg hliðstæð verk-
efni og er aðferðin mikið notuð enn í dag. Lausnin fólst í því sem mætti
kalla stillanlega seinkun (delayed coincidence).
Bohr mat þennan íslenska námsmann mikils og bauð honum nokkr-