Andvari - 01.01.1989, Page 15
ANDVARI
ÞORBJÖRN SIGURGEIRSSON
13
um sinnum heim til sín. Vorið 1941 fékk Þorbjörn styrk úr sjóði sem
hafði verið stofnaður til minningar um son Niels Bohrs, sem drukknaði
tæplega tvítugur að aldri.
Þorbjörn lauk magistersprófi vorið 1943 og var þá ráðinn til starfa
við Eðlisfræðistofnunina þrátt fyrir erfiða stöðu vísindarannsókna. í
Danmörku var nú tekið að syrta í álinn. Um sumarið hneppti þýska
hernámsliðið þá gyðinga í fangabúðir, sem það náði í. Bohr, sem var af
gyðingaættum, hafði flúið nokkru fyrr til Svíþjóðar. Um veturinn tóku
Þjóðverjar stofnun Bohrs í sína vörslu. Þorbjörn komst þá með hjálp
dönsku andspyrnuhreyfingarinnar til Svíþjóðar og fékk starf við
rannsóknir við Nóbelsstofnunina í Stokkhólmi.
Skömmu fyrir lok heimsstyrjaldarinnar, í mars 1945, komst hann
ásamt fleiri íslenskum námsmönnum með flugvél til Englands og fékk
síðan far til íslands með flutningaskipi. Siglt var í skipalest og hreppti
hún hið versta veður nær alla leiðina og tók björgunarfleka og báta út.
Siglingin til íslands tók ellefu daga, skipalestin tvístraðist í óveðrinu og
þegar til íslands kom voru skipin aðeins tvö sem sigldu ásamt her-
skipinu inn á Faxaflóa, en þá hafði óveðrinu slotað. En nú skall á hætta
úr annarri átt. íslensku námsmennirnir voru að skála fyrir heimkom-
unni þegar veikur hnykkur kom á skipið. Tundurskeyti eða djúp-
sprengja hafði sprungið nálægt því. Hættumerki var gefið og allir þustu
upp á þilfar og settu á sig b jörgunarvesti, en siglt var á fullri ferð síðasta
spölinn til Reykjavíkur. Hitt flutningaskipið náði hinsvegar ekki á
leiðarenda því kafbátur sökkti því þarna skammt undan. Sigurður
Þórarinsson jarðfræðingur var þarna einnig á leið heim frá námi í
Svíþjóð. Sigurður Steinþórsson segir frá heimkomunni í Andvara-
grein sinni um Sigurð: ,,Enda fór það svo að eitt skipið í lestinni varð
fyrir skeyti. Stóðu þeir Sigurður og Þorbjörn á dekki og horfðu til lands
þegar þetta gerðist, en áttu hálftæmd glös undir þiljumþiví þeir höfðu
verið að skála fyrir landsýninni. Sagði Þorbjörn þá: „Eg held ég fari
niður og klári úr glasinu.“ Sagði Sigurður þessa sögu til marks um
stáltaugar Þorbjarnar.“3