Andvari - 01.01.1989, Page 16
14
PÁLL THEODÓRSSON
ANDVARI
V Geimgeislarannsóknir í Bandaríkjunum
íslenskt þjóðfélag hafði tekið stakkaskiptum á þeim átta árum sem
Þorbjörn hafði dvalist erlendis. Hann fór frá landi kreppu, atvinnu-
leysis og stöðnunar, en snéri nú aftur til lands þar sem keppst var um
hvern vinnufæran mann og fornir atvinnuhættir bænda- og fiski-
mannasamfélags voru á hröðu undanhaldi. Þrátt fyrir þetta voru litlir
möguleikar fyrir eðlisfræðing að fá atvinnu þar sem menntun hans og
reynsla nýttist. Tvær stofnanir voru þá á landinu þar sem rannsóknir í
raunvísindum voru stundaðar að nokkru marki: Rannsóknastofa Há-
skólans við Barónsstíg, þar sem sjúkdómar manna og dýra voru rann-
sakaðir, og Atvinnudeild Háskólans. Engin þörf virtist vera fyrir eðl-
isfræðing og ekki voru miklar horfur á að Þorbjörn fengi í bráð starf við
sitt hæfi.
Um þessar mundir var undirbúningur hafinn að stofnun tilrauna-
stöðvarinnar á Keldum og í ráði var að kaupa rafeindasmásjá til
rannsóknanna. Segja má að þarna hafi verið brotið blað í vísindasögu
íslendinga, því stefnt var að því að beita flóknara tæki til vísindalegra
rannsókna en áður hafði þekkst hér á landi. Björn Sigurðsson, sem
hafði forgöngu um þetta mál, útvegaði Þorbirni Rockefellerstyrk til að
snúa á braut lífeðlisfræði og til að læra á rafeindasmásjá. Þorbjörn hélt
vestur um haf um sumarið og tók til óspilltra málanna þar. í viðtali í
Tímariti Máls og menningar 1965 lýsti hann stuttu hliðarspori í lífeðl-
isfræði og afturhvarfi til eðlisfræðinnar:
Um sumarið bauðst mér síðan Rockefellerstyrkur ti! lífeðlisfræðináms í
Bandaríkjunum. Það var Björn Sigurðsson, forstöðumaður Tilraunastöðvar
Háskólans að Keldum, sem bauð mér styrkinn með það fyrir augum að ég yrði
síðar starfsmaður tilraunastöðvarinnar.
Ég hafði helzt kosið að vinna að rannsóknarstörfum og þar sem mér virtist
heldur vonlítið að fá aðstöðu til að stunda rannsóknir í sérgrein minni, tók ég
þessu tilboði fegins hendi.
Ég fór svo að fást við vírusa og aðrar smáverur og þótti þær raunar allgirni-
legar til fróðleiks, en ég hafði ekki lengi dvalizt í Bandaríkjunum þegar kjarn-
orkusprengjan var sprengd yfir Hírósíma og öllum varð ljóst hvað verið hafði
að gerast í Bandaríkjunum á kjarnorkusviðinu meðan á styrjöldinni stóð. Þetta
kom mér í vanda. Ég þóttist sjá að aðstaðan til eðlisfræðirannsókna myndi taka
stakkaskiptum og þörfin fyrir eðlisfræðinga stóraukast. Ég fór því að efast um
að það væri skynsamlegt af mér að leggja kjarneðlisfræðina á hilluna, en hún