Andvari - 01.01.1989, Qupperneq 57
ANDVARI
PORBJÖRN SIGURGEIRSSON
55
snúa aftur til íslands. Þorsteinn var eini nemandinn sem vann sem
aðstoðarmaður á Eðlisfræðistofnun sumarið 1959. Ári síðar voru
sumarpiltarnir orðnir þrír, allt menntaskólanemar, því enn var víst
enginn í háskólanámi í eðlisfræði. Upp úr þessu myndaðist föst hefð
sem hefur haft ómetanlegt gildi fyrir bæði vísindarannsóknirnar og
nemendurna. Fjölmargir þættir rannsóknanna hafa verið bornir uppi
af sumarstúdentum, þeir hafa gert kennurum og sérfræðingum kleift
að leysa fleiri og stærri verkefni en ella hefði verið mögulegt og
samtímis hefur þetta starf fært nemendunum verðmæta reynslu og
þekkingu á íslenskum rannsóknaverkefnum.
Að síðustu vil ég rifja upp kafla úr erindi sem Þorbjörn hélt um
eðlisfræðirannsóknir við Háskóla íslands árið 1969, sem ég hef áður
vitnað til. Fessi orð sýna hve bjartsýnn og stórhuga hann var varðandi
eflingu kennslu í raungreinum við Háskólann, en á þessum tíma var
aðeins kominn vísir að slíkri kennslu. Þorbjörn hafði lokið við að flytja
hina skrifuðu ræðu sína en vildi nú ræða enn eitt atriði:
Ég ætlaði eiginlega að minnast svolítið á framhald þessara rannsókna, en ég
veit ekki hvort ég á að draga tímann með því lengur en orðið er.
Ég vil aðeins nefna það hér, að það hafa smátt og smátt safnast saman
allveruleg gögn frá þessum rannsóknum, gögn sem hægt er að leggja til grund-
vallar nýju rannsóknastarfi í mörgum tilvikum. Þar má nefna til dæmis mæl-
ingar segulmælingastöðvarinnar, þar sem óhemjumikil gögn hafa safnazt
saman, og er hægt að vinna miklu meira úr þeim en gert hefur verið.
Hingað til hefur fyrst og fremst verið unnið úr þessum gögnum á þann hátt,
sem venja er á segulmælingastöðvum, en öll línurit liggja fyrir, þannig að allar
breytingar, sem orðið hafa í segulsviði jarðar á hverjum klukkutíma og hverri
mínútu undanfarin tíu ár, er þarna að finna, og það er hægt að sækja þangað
gífurlegan fróðleik.
Veruleg úrvinnsla kemst líklega ekki í gang fyrr en aukin kennsla í raunvís-
indum kemst á hér við Háskólann. Þarna eru gögn sem upplagt er að nota við
framhaldsnám, til dæmis til doktorsprófs, og vona ég að tekin verði upp frekari
kennsla í þessum greinum innan tíðar.14
Fyrst nú, tveimur áratugum síðar, er verið að taka fyrstu varfærnis-
legu skrefin í þá átt sem Þorbjörn ræddi um. Reglugerð um masters-
próf hefur verið samþykkt og fyrstu nemendurnir, sem stefna á þetta
nám, hefja það væntanlega haustið 1989.