Andvari - 01.01.1989, Page 58
56
PÁLL THEODÓRSSON
ANDVARI
XIX Svipmyndir
Ekki er rétt að skilja svo við þessa frásögn að ekki sé sagt nokkuð frá
Þorbirni utan starfa hans að vísindum og við Háskólann. Þetta verður
gert með nokkrum svipmyndum. Hér að framan hefur frásögn Sigurð-
ar Þórarinssonar um heimferðina til íslands verið rifjuð upp, þegar
Þorbjörn vildi fara undir þiljur aftur og klára úr glasi sínu. Á þessu
atviki mætti byrja. Þetta hefur Þorbjörn ekki sagt í gáska, því síður til
að sýna af sér karlmennsku. Enn hafði ekkert komið fyrir skip þeirra,
svo að hann hefur viljað 1 júka góðri veislu þótt hópurinn hafi skroppið
upp á dekk. Hann var ekki að hafa áhyggjur af því sem kynni að koma
fyrir, gekk að hverju verki með gætni, en lét áhættuna ekki trufla sig.
Eitt sinn var ég með Þorbirni í Surtsey þar sem hann vildi mæla
hitastig hraunkvikunnar í gígnum. Þennan dag voru skilyrði hagstæð
fyrir hina erfiðu mælingu. Gígurinn líktist helst stórri hringlaga tjörn,
en hraunið hafði útrás undir gígbarminn. Um 5 metra há brún hafði
myndast af hraunslettum, sem köstuðust alltaf öðru hverju upp á
brúnina, en meginhluta tímans var hraunkvikan þó slétt. Þorbjörn stóð
á barminum með hitanemann, sem var löng stálvarin taug og úr henni
gekk enn lengri rafleiðsla í mælinn, sem ég var með í um 20 metra
fjarlægð. Hann lét hitanemann síga niður í hraunkvikuna en gígbrúnin
skýldi honum og gat hann aðeins skyggnst stutta stund í einu yfir
brúnina vegna hins mikla geislahita. Vandinn fólst nú í því að hafa
hitanemann nógu lengi niðri í kvikunni, en þó ekki of lengi, því mjög
fljótt hlóðst storkið berg utan á hitanemann og varð að losa það af áður
en það varð of þungt. Með því að hrista leiðsluna mátti oftast losa
storkuna, en ef það gekk ekki varð að draga hitanemann upp og brjóta
storkið bergið af með hamri. Nokkur öldugangur var í hrauntjörninni
og þurfti að sæta lagi og ná mælingu þegar yfirborðið hélst kyrrt nógu
lengi. Öðru hverju komu gríðarstórar loftbólur upp með kvikunni og
þeyttust þá kvikuslettur hátt í lofti upp og yfir Þorbjörn rigndi ör-
smáum heitum smásteinum. Þorbjörn hnipraði sig þá saman og lét
úlpuna og hettu hennar skýla sér meðan þetta gekk yfir en hélt síðan
áfram. Ég sá að einhver stóð með kvikmyndavél skammt frá og virtist
festa þetta atvik á filmu. í bók Þorbjörns voru hinsvegar aðeins skráðar
þurrar tölur. Hann vildi ná mælingu á hitanum í gígnum og náði henni.
Meira var þetta ekki fyrir honum.