Andvari - 01.01.1989, Page 59
ANDVARI
ÞORBJÖRN SIGURGEIRSSON
57
í framhaldi af þessu vil ég rifja upp brot úr annarri ferðasögu. Þetta
mun hafa verið fyrsta ferðin sem farin var til að prófa Magna utan
rannsóknastofu. Þorbjörn vildi slá tvær flugur í einu höggi því tveir
gamlir danskir skólafélagar hans, nú prófessorar í Danmörku, voru
með í ferðinni. Farið var í gömlum hertrukk sem Eðlisfræðistofnun átti.
Fyrst var ekið austur að Heklu og gengið á eldfjallið. Síðan var ekið
áfram í Landmannalaugar. Við komum að Jökulkvísl um klukkan tvö
um nóttina. Fremur lítið var í ánni svo Þorbjörn lagði án hiks í hana. Þá
vildi svo illa til að áin hafði grafið straumþungan ál við syðri bakka
fljótsins. Þar festist bíllinn og drap á sér og sökk fljótt nokkuð í
sandbotninn. Við vorum nærri komnir yfir ána svo auðvelt var að
stökkva upp ábakkann. En bílnum varð ekki þokað. Þetta var snemma
sumars og fáir enn á ferð. Svo vel vildi þó til að skammt þar undan stóð
tjald og við það traustur fjallabíll. Við vöktum ferðamennina og
leituðum ásjár hjá þeim og brugðust þeir vel við. Þeir höfðu traustan
nælonkaðal í bílnum, en spyrnan var lítil á árbakkanum og kaðallinn of
stuttur til að unnt væri að losa bílinn með atrennu. Framan á trukknum
var spil með stálvír, en rafmótor þess var ónýtur. Nú var ákveðið að
reyna að nota stálvírinn til að lengja í tauginni til að fjallabíllinn gæti
náð langri atrennu og losað trukkinn með rykkjum. Erfitt reyndist að
losa stálvírinn af spilinu. Þetta var einungis mögulegt með því að rekja
hann með handafli af keflinu, en það var erfitt bæði vegna þess að á
enda vírsins var allstór krókur sem þvældist fyrir, en það sem verra var,
spilið var á kafi í köldu jökulvatninu. Þorbjörn tók nú með þolinmæði
að rekja vírinn af spilinu. Þetta tók vel á aðra klukkustund og var ekki
við það komandi að nokkur fengi að leysa hann af hólmi. Fyrir harð-
fylgi Þorbjörns og eigenda fjallabílsins tókst loks að ná trukknum upp
úr Jökulkvíslinni. Nú var næsta víst að sandur og leir hefði komist í olíu
bílsins. En Þorbjörn hafði séð þetta fyrir, hann var með olíubrúsa á
palli bílsins.
A næstu dagleið mætti okkur óvæntur og erfiður hjalli. Enn var
allmikill snjór á hálendinu og urðum við því á köflum að þræða erfiða
leið og á einum stað varð ekki hjá því komist að brjótast yfir allháan
móbergshrygg, mjög brattan og með lausri möl. Þorbjörn gaf vel í og
renndi upp hrygginn, en þegar hann var kominn langleiðina upp fór
bíllinn að hiksta og drap loks á sér. Hann komst þó í gang aftur en
mótorinn gekk illa og bíllinn náði ekki nægri spyrnu þarna í brekkunni.
Ekki var um annað að ræða en að láta bílinn renna niður á jafnsléttu