Andvari - 01.01.1989, Page 66
SVEINN SKORRI HÖSKULDSSON
Á aldarafmæli
Gunnars Gunnarssonar
Erindi flutt í Þjóðleikhúsinu 18. maí 1989
— í rauninni er ekki hægt aö bera virðingu fyrir neinu nema því að ætla sér hið
ómögulega, sagði Gunnar Gunnarsson einu sinni. Og um eitt skáldverka
sinna hefur hann sagt:
Ég hafði ætlað að ná inn í sagnabálkinn í heild sem mestu af þeirri lífsreynslu, er ég hafði
yfir að ráða, og sannleika, sem helst færi fram úr sannreynd raunveruleikans. Slíkur
sannleikur er til. Það er sannleikur listarinnar. Hafði ég reist mér hurðarás um öxl?
Að reisa sér hurðarás um öxl — að ætla sér hið ómögulega. Er ekki þessi
draumur og dirfskan sem að baki honum býr göfugasti eiginleiki mannsins —
sá eiginleiki sem í senn er uppspretta dáða okkar og dýpstu hamingju og rótin
að sárasta harmleik okkar?
Maðurinn í uppreisn gegn guði — maðurinn sem ekki tekur sköpunar-
verkið gilt. Draumurinn um að yfirstíga allar takmarkanir, skil þess sem við
erum og þess sem við ættum að vera, sigra að lokum sjálfan dauðann.
Aldirnar geyma sagnir um þennan draum. Jakob í glímu við Drottin,
Promeþeus í hlekkjum sínum, Guðinn gerist maður, og maðurinn guð sigrar
dauðann. Eða nær okkur og jarðneskara: Egill Skallagrímsson að yrkja
Sonatorrek, Gunnar Gunnarsson á Friðarhólmi og Skriðuklaustri.
Hvers spyrjum við á aldarafmæli skálds — eða öllu heldur: Hverra spurn-
inga ber okkur að spyrja?
Hér verða svör mín smá. Spyrjum við ekki hvert erindi á skáldið við okkur
eða e.t.v. frekar: Hvert erindi eigum við inn í það hús sem skáldskapur þess
er?
„Guðshús þetta er ætlað fuglinum fljúgandi og þeim öðrum, er eiga leið um
fjöllin.“
Svo lýsti Uggi Greipsson þeirri kirkju sem hann hugðist reisa með verkum
sínum.
Á aldarafmæli Gunnars Gunnarssonar ættum við e.t.v. að spyrja: Hvar
stendur það hús sem hann reisti guði, fuglum og fjallafarendum? Hvar
stendur þetta hús og hvert erindi eigum við þangað?