Andvari - 01.01.1989, Page 68
66
SVEINN SKORRI HÖSKULDSSON
ANDVARI
skáldin Johan Skjoldborg og Jeppe Aakjær væru á svipuðu róli, skorti verk
þeirra framandleik fjarlægðarinnar bæði í sagnaheim sinn og málfar. Hér
komu hin ungu íslensku skáld með eitthvað sem danskar bókmenntir skorti.
Þau færðu þeim ,,Heimatdichtung“ úr fjarlægu og framandi horni danska
ríkisins.
Með höfundarsigri Gunnars Gunnarssonar á danskri tungu við útkomu
Ormars örlygssonar 1912 hafði hinn bjarti þáttur hamskiptaævintýrsins
ræst. Við tók þriggja áratuga frægðarganga um danskan og evrópskan bók-
menntaheim. Útlínur þeirrar sögu eru öllum kunnar og ekki þörf að rekja.
Orðstír hans á þessum árum fór með himinskautum. Hann var í senn virtur af
vandlæturum og elskaður af alþýðu.
En ævintýr hamskiptanna greina ekki aðeins frá uppfyllingu draumanna,
gleðinni í glæsisölum tignarlífs. Þau geyma einnig harm og þjáningu þess sem
er af tveimur heimum, lifir klofinn milli tveggja veralda. — Sjö börn á landi,
sjö í sjó.
í þeirri staðreynd felst staða Gunnars Gunnarssonar í íslenskum bók-
menntum.
Ef íslendingar voru ekki of smáir til þess að gleðjast og vera stoltir af frama
hans úti í hinum stóra heimi, þá voru þeir líka of miklir af sjálfum sér til þess
að fyrirgefa honum fullkomlega að hann samdi verk sín á öðru máli en þeirra.
Oþarfi er að minna hér og nú á gagnrýnendur þessa þáttar í höfundarverki
hans eins og Einar Benediktsson eða Holger Wiehe.
Skáldskapur er iðkun máls. Þegar Gunnar Gunnarsson valdi að iðka
danska tungu í skáldskap sínum skildi leiðir með honum og vexti íslensks
skáldskaparmáls á þessari öld. Kirkja hans stendur á fjalli ein og sér í annarri
sókn.
Er þá Gunnar Gunnarsson óíslenskur höfundur?
Fjarri fer því. í verkum hans lifir ísland og íslenskt mannlíf í þeirri næmu
nánd sem fjarlægðin gefur. Um hans eigin skáldskap eiga við þau orð sem
hann hafði um hina fornu höfunda Eddu og íslendingasagna: „Þar fann hinn
ógleymni útflytjandi þrá sinni vængi og kristallaði draum sinn í sýn.“
Sjálfur var hann hin ógleymni útflytjandi.
Honum var þessi staða sín í íslenskri menningarsögu ljós.
Leyfist mér að flytja hér eina persónulega minningu?
Nokkrum mánuðum fyrir dauða sinn sagði hann mér frá þeirri ósk sinni að
mega hljóta leg í Viðey ásamt Franziscu konu sinni. Og hann gaf mér
eftirfarandi skýringu á táknlegri merkingu þeirrar óskar: — Ég dvaldist bestu
manndómsár mín utan íslands, en var þó í rauninni alltaf á íslandi. Því fer vel
á því að ég fái að hvíla í íslenskri mold en þó utan íslands.
Harmræn örlög þeirra, sem fyrir hamskiptum verða, eru þau að þrá jafnan
uppruna sinn.
S.