Andvari - 01.01.1989, Page 78
76
SIGFÚS DAÐASON
ANDVARI
Þórbergs, að neyð hans og sálarþrengingar hafa þjakað hann mörg ár eftir þá
björgun.
Þórbergur sagði sjálfur frá pörtum úr ævi sinni í tveimur ritverkum, fyrst
frá tímabilinu 1909 til 1913 í Ofvitanum og íslenzkum aðli, og síðan sagði
hann af bernsku sinni og bernskuslóðum í Suðursveitarbókunum fjórum.
Vitaskuld víkur hann víðar að köflum úr ævi sinni, t.d. í Bréfi til Láru og ekki
sízt í samtalsbókinni við Matthías Johannessen, í kompaníi við allífið, og í
nokkrum smærri ritum. En í rauninni hefur til skamms tíma ekki ýkja mikið
verið kunnugt um tímabilið frá því Ofvitanum lýkur fram um 1920. Vegna
þessa heimildaskorts hafa menn leiðst til að fara yfir þessi ,,tómu“ tímabil á
hálfgerðum handahlaupum, að vísu stundum með því að styðjast við stopular
yfirlýsingar Þórbergs sjálfs. Að vonum hefur þetta leitt til skakkra ályktana.
En það má vera að Þórbergur hafi vísvitandi stuðlað að slíkri hlaupafræði
með nokkurskonar ,,misinformation“ eins og það heitir líklega í fjölmiðla-
fræði.
II
Þórbergur hneigðist til þess — það hefur reyndar verið áráttu líkast — að
skipta lífi sínu í afmörkuð tímabil; samkvæmt yfirlýsingum hans hafa hér og
þar á lífsbraut hans orðið dramatísk skil. Frægust greinargerð um tímabil ævi
hans er í ,,Endurfæðingakrónikunni“ sem Stefán Einarsson prentaði í riti
sínu um Þórberg fimmtugan. Þar eru taldar sex ,,endurfæðingar“, hin fyrsta
1906, hin sjötta 1933. Krónikan sú virðist reyndar mest til gamans gerð, þó
einhver alvara fylgi því gamni. Aftur á móti eru til aðrar yfirlýsingar um
örlagarík umskipti í ævi Þórbergs, sem virðast gefnar af meiri alvöru og meiri
ástríðu.
í frægri grein, ,,Ljós úr austri“, skrifaðri árið 1919, lýsir Þórbergur því
„sviplega áfalli“ þegar hann missti allt í einu heilsuna „á nokkrum augna-
blikum“ í september 1914, og var hann þó hraustur „eins og hann átti vanda
til“ daginn áður. Upp úr þessari „ömurlegu septembernótt“ var hann líkam-
lega annar maður, segir hann. Fjögur næstu árin fóru síðan í það að endur-
heimta heilsuna, með litlum árangri, og rættist ekki úr þrátt fyrir „böð
daglega“, Mullersæfingar og „gönguskorpur, venjulega um sama leyti dags“,
fyrr en hann fór að iðka yoga, en á því segist Þórbergur hafa byrjað haustið
1918. Það er því sýnt, að á þessu tímabili, samkvæmt Þórbergi sjálfum,
stendur hann mjög tæpt, og þarf nokkurskonar kraftaverk til þess að hann
bjargist.