Andvari - 01.01.1989, Page 94
92
GUNNAR KRISTJÁNSSON
ANDVARI
og málefni... líka í okkar blessuðu kirkju“ (bls. 35). í hverju felst utanvelta
hans, um hvað snýst málið? Þannig hlýtur lesandinn að spyrja. Vonandi tekur
Rögnvaldur sér pennann í hönd sjálfur og skrifar í einlægni og trúnaði
játningarrit sem hann vill að lesandinn treysti og læri af. Fróðlegt væri að fá
skilgreiningu á prestinum sem er utanveltu. Kirkjan þarfnast þess! í bók-
menntum þessarar aldar er presturinn sem fer sínar eigin leiðir algengt
viðfangsefni, presturinn sem fellur ekki inn í mynstrið en brýtur þess í stað
niður viðtekna prestsímynd sem er að hans mati úrelt og röng. Hann lætur
sannfæringuna ráða og vera viðteknu félagslegu mynstri yfirsterkari. Hann
tekur frekar mið af jesúfólki Nýja testamentisins heldur en stofnuninni
kirkju.
Vandinn sem Rögnvaldur er að lýsa virðist mér liggja í því að hann er
staddur í hringiðu breyttra tíma þegar ímynd prestsins er að breytast, hann er
utanveltumaður í kirkju sem er að verða utanveltu við þjóðlífið. Hann er ekki
sveitastrákur sem á sér fyrirmynd í prestinum á prestssetrinu. Hann er af
mölinni. Hann lítur ekki upp til þeirra presta sem hann sér standa fyrir
jarðarförum í Firðinum þegar hann er að alast upp, séra Garðars Þorsteins-
sonar þjóðkirkjuprests og séra Jóns Auðuns fríkirkjuprests. Að hans mati
er þar engin prestsímynd sem hann getur tekið gilda fyrir sjálfan sig.
Rögnvaldur er sprottinn úr nýjum jarðvegi fyrir upprennandi prest:
kaupstaðnum. Fleiri voru að sönnu sprottnir úr svipuðum jarðvegi t.d., séra
Jón Auðuns. Rögnvaldur er úr verkalýðsstétt en Jón borgarastétt. Hann
finnur og veit að boðskapur Nýja testamentisins er boðskapur handa hinum
fátæku og snauðu. í augum Rögnvalds er kirkjan á rangri leið og í guðfræði-
deildinni er utanvelta hans undirstrikuð með því að þar eru það hinir trúuðu,
KFUM-mennirnir, sem virðast vera á heimavelli. Hann ekki. Hér vekur
Rögnvaldur mergð spurninga með lesandanum. Nú er komið að hugmynda-
fræðilegu og guðfræðilegu uppgjöri hans við þá sem höfðu „eignað“ sér
kristindóminn. Úr þessum efnivið á Rögnvaldur eftir að vinna. Það verður
spennandi að lesa!
Séra Sigurður Haukur
Saga séra Sigurðar Hauks er léttilega skrifuð og auðlesin, skemmtileg á
köflum; stíllinn er hraður og frásögnin hispurslaus, oft með spaugilegu ívafi.
Sigurður Haukur gerir óspart grín að sjálfum sér og lætur allt flakka. Stund-
um grunar maður hann um léttar ýkjur, t.d. þegar hann gefur í skyn að reynt
hafi verið að fá hann settan frá embætti eftir að hann stóð fyrir hundahreinsun
á Hálsi (bls. 130). En slík tilþrif spilla ekki frásögninni nema síður sé.