Andvari - 01.01.1989, Page 96
94
GUNNAR KRISTJÁNSSON
ANDVARI
stundum býsna framandi. Séra Róbert kann að segja frá og það gefur endur-
minningum hans sérstakt gildi.
Endurminningar Róberts Jacks eru náskyldar íslenskum endurminningum
þegar á heildina er litið. Hér er rifjað upp, lífsferillinn rakinn, getið um menn
sem höfundur hefur kynnst á lífsleiðinni, dálítið fjallað um málefni sem miklu
hafa varðað í vitund sögumanns en síðast en ekki síst er það prestur sem
þjónað hefur á afskekktum stöðum á landinu sem segir frá reynslu sinni í
kirkju og utan.
ímynd prestsins á hverfanda hveli
Þjóðkirkjan er orðin að því sem siðbótarmenn ætluðu henni aldrei að verða:
prestakirkju. í þjóðkirkjunni er það því ekki hvað sístpresturinn sem skiptir
miklu máli og sá skilningur sem býr að baki starfi hans í hans eigin huga og í
vitund þjóðarinnar.
Þegar kirkjusaga tuttugustu aldar verður skrifuð mætti ætla að hún verði
rituð með öðrum hætti en áður. Þá var kirkjusagan saga biskupanna.
Kirkjusaga tuttugustu aldar er ekki hvað síst saga prestanna. Og meira en
það: hún er saga breyttrar prestsímyndar.
Þeir prestar sem gerðir eru að umf jöllunarefni í þessari ritgerð endurspegla
þjóðkirkjuna á þessari öld, hver á sinn hátt. Tveir þeir elstu lifa umfangsmeiri
breytingatíma en orðið hafa í sögu kirkjunnar um langan aldur. Hið
kyrrstæða bændasamfélag breytist í samfélag bæja og borgar. Sveitaprestur-
inn er ekki eina prestsímyndin sem til er, nýr prestur kemur fram á sjónar-
sviðið: borgarpresturinn sem tekur raunar á sig ýmis gervi. Þeir Sigurbjörn og
Árelíus eru meðal þeirra sem fyrstir ganga í þeirri fylkingu (Sigurbjörn
raunar aðeins í tæp fjögur ár). En fyrirmynd þeirra er sveitapresturinn, ímynd
kirkjunnar í þeirra huga og það sem þeir þekktu er sveitakirkjan. Yngri
prestarnir eru hins vegar bæjarbörn.
Hér eru prestar á tímamótum í kirkju og þjóðlífi; þeir lifa upplausn
hefðbundinnar guðrækni, hefðbundins kristindóms; upp renna tímar nýrra
viðhorfa; þeir lifa átök nýguðfræði og nýrétttrúnaðar; helgisiðahreyfingin
kemur fram á sjónarsviðið, spíritisminn festist í sessi; fjölbreytilegt safn-
aðarstarf er hin nýja krafa til prestsins. Fólk utan af landi flyst til borgarinnar;
úr grasi vex kynslóð sem hefur ekki alist upp við fastmótaða trúarhætti, fólk
þéttbýlisins, rafmagnsljóssins, útvarpsins og sjónvarpsins. Allt þetta gróf
undan félagslegum forsendum fyrir hefðbundinni stöðu prestsins.
Og þegar betur er skyggnst eru breytingarnar ekki aðeins á yfirborðinu
heldur gerast þær mun dýpra. Borgin kallar hið afhelgaða samfélag fram á