Andvari - 01.01.1989, Page 99
ANDVARI
PRESTAR Á VOGARSKÁLUM
97
fremur var hann þó maður orðsins. Orðsins menn eins og meistari Vídalín
eða Hallgrímur Pétursson voru fremstir í flokki í vitund þjóðarinnar. Nú er
presturinn ekki eini orðsins maður með þjóðinni. Orðsins menn eru margir,
rithöfundar, stjórnmálamenn, fjölmiðlafólk, kennarar og ýmsir aðrir. Orðið
og máttur þess er á valdi fleiri aðila en áður var. Það dregur úr sérstöðu
prestsins.
Erlendar rannsóknir meðal presta sýna að viðhorf þeirra sjálfra til starfsins
eru æði fjölbreytileg. Sumir líta á það út frá skipulaginu, þeirra sé þörf til að
halda mannlífinu skikkanlega í röð og reglu svo það verði ekki ringlureið að
bráð, aðrir leggja áherslu á boðun heilags anda og afturhvarf einstaklingsins,
þá eru það þeir sem leggja sig fram um að vera góðir sálusorgarar og leita uppi
einstæðinga og uppburðarlitla. Síðan koma þeir sem Ieggja sérstaka áherslu á
sterka boðun orðsins úr prédikunarstóli en gleyma þó ekki að einnig þurfi að
vera fjölþætt safnaðarstarf á vegum safnaðarins alla daga vikunnar. Pá eru
það hinir félagslega sinnuðu sem benda á þörfina fyrir sérþjónustuembætti —
leikmanna og presta — á vegum kirkjunnar (sjúkrahús, fangelsi, skólar
o.s.frv.). Loks eru það hinir róttæku sem hafa auga með pólitíkinni, gefa lítið
fyrir ölmusur eða góðgerðastarfsemi en fylgjast með mótun samfélagins,
umræðum á þingum og ráðstefnum, viðhorfum leiðandi manna í vísindum og
tækni og vilja hafa áhrif á þá. Þeir vilja að kirkjan móti mótendur samfé-
lagins.
Með öðrum orðum: ímynd prestsins hefur tekið breytingum á miklum
breytingatímum í þjóðlífinu. Endurminningar presta ættu að auðvelda nýrri
kynslóð að átta sig á þróuninni, á hægfara og hraðfara breytingum. Hver var
presturinn, hvernig er hann, hvernig á hann að vera? Þær endurminningar
sem hér hafa verið til stuttrar umfjöllunar varpa ljósi á þessar spurningar,
hver á sinn hátt.
Eftir stendur þó eitt: presturinn er sérstæður, hann er ekki eins og aðrir,
starf hans er annars eðlis en önnur störf í þjóðfélaginu, það verður heldur
ekki metið á neinn þekktan mælikvarða með nokkurri sanngirni. Ævisögur
presta hljóta því að vera spennandi þegar presturinn sem í hlut á reynir að
brjóta sitt eigið hlutverk til mergjar eftir bestu getu. Ævisaga sem gerir lítið
annað en rekja ætt prestsins og ryðja síðan yfir lesandann hversdagslegum
sögum úr samskiptum prestsins við samferðamenn sína er lítið áhugaverð.
Lesandinn á von á átökum sálusorgarans við mannlegan vanda, við sitt eigið
líf, við eigin efasemdir, eigin vonbrigði, sorg, söknuð, örvæntingu. Hann
væntir þess að tímanna tákn séu metin í ljósi einhvers þess veruleika sem er
merkilegri, traustari og dýpri en hið hversdagslega þref fjölmiðlanna. Nú
hefur presturinn tíma handa lesandanum, nú er lesandinn tilbúinn til að
hlusta á prestinn, nú er það ekki aðeins korter sem presturinn fær eins og í
prédikuninni heldur eins langur tími og hann þarf fyrir allt sem honum finnst
7