Andvari - 01.01.1989, Síða 123
andvari
LJÓÐIÐ VILL EKKI SKÝRA
121
flatur frásagnarprósi, og segir frá því hvernig skáldið tók pólitíska barnatrú á
langafa (þ.e. Stalín). En kjarni bókarinnar er myndin af föður höfundarins,
verkamanni sem aðhylltist kommúnismann en mátti þola að goðið félli af
stalli sínum. Þessi hugmynd um Stalín er vafalaust ættuð frá finnska skáldinu
Saarikoski og bók hans, Ég horfi yfir um höfuðið á Stalín. Dauflegt pólitískt
uPPgjör mun mega kalla bók Jóhanns en hún er á köflum einkar fallega
stíluð. Frásögnin af reynslu föðurins er vísast dæmigerð fyrir kynslóð hans
alla.
I kjölfar Myndannnar af langafa komu þrjár bækur á jafnmörgum árum,
allar í þeim opna, ofurljósa stíl sem Jóhann hafði nú tileinkað sér. Dagbók
borgaralegs skálds, 1976, er eitt helsta verk höfundar ásamt Athvarfi og í
áþekkum stíl. Frá Umsvölum, 1977, er aftur í prósastíl líkt og Myndin, eins
konar dagbók frá dvöl höfundar á Kópaskeri með vinum sínum, heims-
hornafólki sem sest hefur um kyrrt á úthjaranum. Bókin er vissulega fremur
prósi en ljóð, „ljóðsögu“ minnir mig að Jóhann vildi kalla þessa tegund
skáldskapar. Frásögnin uppistaða, andrúmsloftið ljóðkynjað, orðfæri einfalt
og auðráðið, líkingasnautt. „Ég veit ekki hvort bókin er betri en aðrar bækur
Jóhanns frá síðustu árum. En hún sýnir að hann hefur náð auðkennilegum
tökum á stíl sínum og efniviði, og vinnur skipulega,“ sagði höfundur þessarar
greinar í ritdómi um Frá Umsvölum og bætti við: „Nú sýnist mér honum helst
stafa hætta af því að stíllinn reynist honum of auðveldur og sjálfvirkur af þeim
sökum “(Tíminn, 22.nóv.l977)
Þetta hefur Jóhann líklega fundið sjálfur. Ári síðar gaf hann út Lífið er
skáldlegt, 1978, eins konar eftirhreytur. í nafni bókarinnar felst stefnuskrá:
að sjá hið skáldlega í „lífinu“ sjálfu, hversdagslífinu eins og það líður, og
breyta því í skáldskap. Auðvitað er lífið hvorki skáldlegt né óskáldlegt, allt er
undir auga skáldsins komið. Skil lífs og ljóðs sjáum við t.d. skemmtilega í
þessu ljóði í Lífið er skáldlegt:
Veðrið í ljóðinu og veðrið á hafinu
er ekki hið sama. Stormur er fagurt orð.
Á sjó er merking þess önnur.
Bátar leita vars. Garg mávanna
verður langdregið, ströndin fjarlæg.
Þeir fljúga inn í ljóðið
og breytast í mynd. Þegar skáldið hefur skrifað:
Stormur, mávur, strönd er ljóðið fullkomnað.
Úti er einmana vindur yfir gráum haffleti.
Eftir Lífið er skáldlegt varð þögn í húsi skáldsins í sjö ár. Þá hafði Jóhann
gefið út ellefu bækur innan við fertugt og þannig verið með mikilvirkustu
Ijóðskáldum. Að ástæðum þess að hann þagði svo lengi skal engum getum