Andvari - 01.01.1989, Side 127
ANDVARI
LJÓÐIÐ VILL EKKI SKÝRA
125
vökunni sem draumurinn rifjar upp,
endurtekur sífellt. Skáldið vaknar,
rís upp úr flókinni veröld minninga
þegar birtan þrengir sér inn,
vaknar of snemma í nýju landslagi
og byrjar hikandi að velja því orð,
gefa því heiti án þess að skýra neitt.
Hér er ljóðið orðið eins og lífið, sú skynjun okkar á heiminum sem við
reynum ekki að skýra, eins og náttúran sjálf. Ljóðið gefur þessum fyrirbærum
aðeins nafn. Kerfisbundin hugsun, skýringar og skilgreiningar er prósaískt,
óljóðrænt. Er þetta ekki uppgjöf frammi fyrir hugsuninni? Vera má það, en
ljóðrænn skynjunarháttur á líka sinn rétt og mér virðist Jóhann vera að halda
honum fram hér. Petta er leikur hugans: draumar, minningar, stundin sem
kemur og fer, hið óræða í tilverunni. Sá er hinn afar huglægi heimur bókar-
innar. „Hver maður ratar að lokum /heim úr draumi sínum.“ Svo hljóðar
stysta ljóðið í kaflanum ,,Heim“ sem eru stef út af fornsögum; þetta er ort út
af Bjarnar sögu. Jóhann bætist hér í hóp þeirra skálda sem láta fornsögur
verða sér að ljóðkveikju. En síðasti kafli bókarinnar, ,,Endurtekningar“,
myndir frá Spánardvöl, eru verðug lok bókarinnar. Þar koma helstu táknin
saman og lífssýn skáldsins er túlkuð í hinu jafnvæga myndmáli sem Jóhann
hefur löngu náð alpersónulegu valdi á. „Hinn nærtæki framandleiki“, —
þessi voru einkennisorð sem höfundur greinarinnar hafði eitt sinn um Ijóð
Jóhanns. í lok bókarinnar er einmitt ort um þetta. Maðurinn á ströndinni á
Malaga „sekkur á kaf í þanka sína“:
Þegar honum skýtur upp
er dagurinn framandi,
ströndin önnur og hann þekkir ekki lengur
þröngar göturnar sem liggja heim.
Ljóðlistin er í eðli sínu töfraspil, sjónhverfingar. í ljósi hennar takast
hlutirnir á loft, hið fjarlæga verður nærtækt, hið nærtæka fjarlægt. Þetta eðli
verður manni einatt ljóst í hinum fremsta nútímaskáldskap, af því að nútím-
inn er svo mótsagnakenndur, banall og óskiljanlegur í senn. Þá tvíþættu
framandleikakennd sýnist mér að Jóhanni hafi tekist að fanga í bestu ljóðum
Glugganna. Engin bók hans held ég að sé jafnörugglega stíluð og þessi, í
jafngóðu listrænu jafnvægi.
Menn hafa löngum getað fett fingur út í einstaka staði í ljóðum Jóhanns þar
sem stílgáfa hans bilar, fremur en skynjunargáfa sem er frá upphafi alveg
ótvíræð. Slíkar aðfinnslur má sjá í ritdómi Jóns Arnar Marinóssonar í Skírni
1986 sem fyrr var nefndur. Ennfremur í ritdómi Ólafs Jónssonar um Dagbók