Andvari - 01.01.1989, Page 137
ANDVARI
í TEIKNI NÁTTÚRUNNAR
135
návist mildinnar,
mýkt, fró
og tær ljóminn
sem leikur um þig.
Síðan snýrðu aftur
hina sömu leið;
en sársauka dagsins,
beiskju og þunga
læturðu eftir, umbreytt
í altarisljómanum —
óþekkjanleg
frá grænni dögginni.
Þorsteinn Valdimarsson samdi sig aldrei að venjum og þörfum neyslu-
samfélagsins; ásókn í veraldargæði var fjarri eðli hans og áhuga. Heimssýn
hans var þrungin manngæsku og mannúð, þjóðmálaviðhorf hans einkenndust
af metnaði og umhyggju fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og andúð á hernaði og
áþján.
En skilgreining kvæða hans á manninum sjálfum — á einstaklingnum hér
og nú — er ekki eins einhlít eða augljós og viðhorf hans til þjóðmála,
heimsmála eða náttúrugilda. Skáldinu er ljóst að mannskepnan er flókið
fyrirbæri en hún er af sama ætterni og náttúran sjálf. Maðurinn er af „tvenn-
um toga“, „tvennum moldum“ rétt eins og ættjörðin, segir í kvæði sem heitir
Yrkjur í samnefndri bók (’75), þ.e.; þeim moldum „sem plógur sker,/ og þeim
sem hugur yrkir orðum.“ Að vinna og að yrkja er eðli og hlutverk mannsins
en ófriður er honum ekki sæmandi, — „heillir norna hálfar undir ljóði“ segir
þar. Þorsteinn hafði í raun óbilandi trú á að hið góða og framsækna í
manninum myndi færa okkur fagra framtíð þó að efasemdir virðist hafa
hvarflað að honum undir það síðasta. Mannsímynd hans er frjáls einstakl-
ingur í bestu merkingu frelsis-hugtaksins, — frjáls með sterka siðferðilega
ábyrgðartilfinningu. Táknmynd þessa einstaklings er bjargið í samnefndu
kvæði (’75). Það rís úr bylgjuróti og stormasúg; frumkraftar náttúrunnar
glymja boðorðin: Stattu fast! Vertu frjáls! Svipaðar táknmyndir manns-
ímyndar eru alkunnar úr eldri rómantískum kveðskap.
Á efasemdum um baráttu og lífstilgang örlar fyrst í Yrkjum, næstsíðustu
ljóðabók skáldsins. í kvæðinu Ferðin á heimsenda er í kaldhæðni vikið að
,,gönguferð á heimsenda“ sem ekki virðist hafa launað erfiðið. Það eru
gaukur og ax sem mæla: