Andvari - 01.01.1989, Page 139
ANDVARI
{ TEIKNI NÁTTÚRUNNAR
137
Handgenginn engum áttum,
af öllum frjáls,
næ ég hvarvetna háttum
mín sjálfs.
Þetta lýsir óneitanlega viðhorfum í anda tilvistarstefnunnar og kann það að
koma á óvart þegar horft er til þeirra lífsviðhorfa sem lengst af ríktu í ljóðum
Þorsteins. Hugrenningarnar í þessum ljóðum, ásamt þeim sem áður voru
tilgreind úr Yrkjum , vitna þó ekki um stefnubreytingu, heldur íhugun að
leiðarlokum. Hér eru engar fyrirbænir, engin fyrirheit um framtíð þessa
heims eða annars. En þetta er ekki í ósamræmi við þá náttúrukennd sem
nærði hug skáldsins og kvæði þess. Fjórða og síðasta smákvæðið vísar á sættir
þessara tveggja þátta: náttúrukenndar og exístensíalisma. Líf og dauði eru
óumflýjanleg örlög í hringferli náttúrunnar. Þetta knappa kveðjuljóð
heitir Hvel:
Ljós ber á rökkurvegu,
rökkur ber á ljósvegu.
Líf ber til dauða,
og dauði til lífs.
Ljóðstíll Þorsteins Valdimarssonar einkennist af styrkri málkennd og
óvenjulegri leikni í brag og rími. í fyrstu ljóðabókum hans er orðfærið í stöku
ljóðum nokkuð samanrekið og mærðarmikið. Hátíðlegt, upphafið ljóðmál
hefur leikið Þorsteini á tungu en með tímanum agar hann það og fágar og
sýnir mikla hugkvæmni í málbeitingu. Hann lagði meiri rækt við orðsnilld og
máltöfra en frumlega eða flókna líkingasmíð. Eigi að síður ræður hann yfir
ærinni myndvísi, bregður stundum upp lystilegum myndhverfingum en ekki
síður svipmiklum beinum myndum sem njóta góðs stuðnings af kynngi orða
og hljómblæ máls, t.d. í ljóðinu Hádegi (’75):
Þá steypist óðar
en sjón á festi, mitt yfir mókandi leiru,
mýragaukur úr bliku skýja.
Sólarloftin syngja honum við eyru
sumarvindalagið nýja.
Og af fjöðrum fram að skálda sið
fellir hann þotugneggið við.
Það mætti skrifa langt mál um bragleikni Þorsteins Valdimarssonar. Ætla
mætti að það hafi verið honum ástríða að leysa formþrautir. Fjölbreytnin í
brag, rími og formi er með ólíkindum og lengi má lesa leyndan galdur úr
margri formgerðinni. Sléttuband heitir smáljóð í Hrafnamálum: