Andvari - 01.01.1989, Blaðsíða 164
162
EYSTEINN SIGURÐSSON
ANDVARI
2) Ættjarðarást og aðdáun á íslenskri náttúrufegurð, hvort heldur er í vetrar- eða
sumarklæðum.
3) Frelsiskröfur, þ.e. hugmyndir um framfarir á íslandi, fyrst og fremst pólitískar, sem
leiða skyldu til þess að þjóðin gæti aftur staðið á eigin fótum, frjáls og fullvalda.
4) Alhliða fegurðardýrkun, sem m.a. birtist í kvæðum um ástir, aðdáun á kvenlegum
yndisþokka og löngun skáldanna (karlmanna) til samskipta við konur, allt undir fáguðu
yfirborði10.
Þórir Oskarsson tekur þessi atriði mín upp í grein sína og viðurkennir
raunar að „mikilvægi þeirra verður víst seint dregið í efa.“ En í framhaldi af
því segir hann orðrétt:
Það er hins vegar varhugavert að skoða þau ein og sér og án allra tengsla við bók-
menntasöguna. Fæst þeirra eiga sér nefnilega rætur í rómantískum bókmenntum þótt
þau blómgist þar og breiði úr sér. Þannig eru mörg yrkisefni rómantíkurinnar, svo
sem ástin, náttúran, föðurlandið eða forn hetjuskapur, vitaskuld sígild, snar þáttur í
skáldskap allra tíma. Kveðskapur Eggerts Ólafssonar, eins helsta skálds upplýsingar-
stefnunnar, einkennist til dæmis mjög af fornaldardýrkun, ættjarðarást og frelsishug-
sjónum, og aðdáun hans á íslenskri náttúrufegurð verður ekki vefengd. Það er jafnvel
hægt að leita allt aftur til Hallgríms Péturssonar og annarra skálda 17. aldarinnar að
fornaldardýrkun í einhverri mynd. Hvað varðar ástarkvæðin þá er nærtækt að minna á
ljóð Stefáns Ólafssonar frá Vallanesi um bjartar meyjar og hreinar á ísa köldu landi, svo
ekki sé farið að tíunda kveðskap Kormáks til Steingerðar11.
Aftur verður ekki annað sagt en að hér sé þetta svo sem alveg hárrétt hjá
höfundi. Að vísu með fyrirvara um það sem hann segir um frelsishugsjónir
Eggerts Ólafssonar og aðdáun hans á íslenskri náttúrufegurð. Flestir vita
nefnilega að hjá honum voru það fyrst og fremst hagnýtar framfarir til lands
og sjávar sem settar voru á oddinn. Eins og allir vita var Eggert konungssinni
og lét sig ekki dreyma um frjálst og fullvalda ísland, líkt og rómantísku
skáldin á 19. öld. Og eitthvað mun líka blendið með aðdáunina á fegurð
íslenskrar náttúru hjá honum; yfirleitt telja menn nú heldur að hann líti
töluvert fremur til hennar með búmanns- og gagnsaugum heldur en af ein-
skærri fegurðarást.
Aftur á móti er ég ósammála því sem hér segir um það að varhugavert sé að
skoða þessi megineinkenni rómantísku stefnunnar ein og sér og án allra
tengsla við bókmenntasöguna. Ég held þvert á móti að varhugavert geti verið
að skoða þau of mikið í sögulegu ljósi. Hér heldur Pórir nefnilega áfram og
segir:
Af þessu má sjá að bókmenntastefnur verða vart skilgreindar með yrkisefnin ein í
huga. Þar hljóta efnistök og áherslur skáldanna að skipta að minnsta kosti jafn miklu
máli12.
Hér hefur hann aftur út af fyrir sig rétt fyrir sér en dregur þó ranga ályktun
af réttum forsendum. Hann gleymir að gæta þess að í hinu orðinu var hann að