Andvari - 01.01.1989, Síða 168
BENEDIKT S. BENEDIKZ
Guðbrandur Vigfússon
Erindi flutt við Háskóla íslands
á aldarminningu ártíðar hans, 31. janúar 1989
Það eru vel fimm áratugir síðan ég fyrst heyrði Guðbrands Vigfússonar getið
(að mér vitandi), en það gerðist eins og margt annað í bókaherbergi dr. Bene-
dikts Pórarinssonar, afa míns. Þar sat ég oft óséður og las á meðan gestir
komu og töluðu við hann. í þetta skipti hafði gesturinn verið Bogi Ólafsson
yfirkennari. Þeir voru lengi að tala um eitthvert málefni sem ég skildi ekki, en
svo kvað Bogi upp úr með sinni drynjandi rödd: „Nei, Benedikt minn, Guð-
brand þarf að rífa í sundur og allt að setja saman að nýju.“ Mér þótti nú held-
ur en ekki eiga að fara hörkulega með manninn, og þegar gesturinn var farinn
spurði ég afa minn hver þessi Guðbrandur væri sem Boga væri svona illa við.
Gamli maðurinn hló og sagði að ég skyldi ekki taka mér þetta nærri, það væri
orðabók en ekki mann sem ætti að endurgera. Að barna hætti lét ég mér þetta
nægja í bili. En svo kom nú tíminn að ég lærði eitthvert hrafl í ensku og fór
að notfæra mér þessa bók, og loks varð það hamingja mín að gerast stúdent
við háskólann í Oxford. Þar varð ég þess var að Gabriel Turville-Petre, sá
frægi vísindamaður sem kenndi þar fræði Guðbrands, var einnig tengdur við
nafn hans sem Vigfússon Reader in Ancient lcelandic Literature and Antiquit-
ies, og einnig að bréf og skjöl Guðbrands var að finna í ævintýrahöll þeirri
sem Bodleyssafn er fræðaþyrstu ungviði. Þá tók nú að festast í hug mér áform-
ið að rannsaka manninn og verk hans, og er ræða þessi endi hins langa dags-
verks sem ég setti mér með því. Maðurinn reyndist mannfælinn með afbrigð-
um, og því fleiri sem voru vitni er ég gat kallað fram, því betur var sem Guð-
brandur hyldi sig bak við fleiri og fleiri huliðsblæjur. Einnig var lestur rita
hans löng og örðug vinna, en hún reyndist líka nauðsynleg, því það sem sagt
hefir verið um Guðbrand á síðari árum reyndist oft og mörgum sinnum byggt
á þjóðsögum frekar en frumgögnum. Þó hefir hann aldrei skort forvígismenn
og þá ekki af lakari endanum. Hingað til hefir þó enginn reynt að fylgja dæmi
Herjólfs í Landnámu og segja bæði kost og löst, en ártíð hans sem nú fellur er
væntanlega vel til þess fallin að gera megi fyrstu tilraun í þá átt.