Andvari - 01.01.1989, Side 171
ANDVARI
GUÐBRANDUR VIGFÚSSON
169
Sé ég sem í draumi
sjúkan mann á beði -
feigð lá fast að brjósti -
fæðast í Ijós annað.
Hávamál nær höfði,
Heimskringla nær brjósti,
en við hjartað hvíldu
Hallgríms Ijóðin dýru. -
Þar finnum vér textann sem út af má leggja þegar lagt er í leit að manninum
sem huldist að baki hins mikla prentaða dagsverks.
II
Æviatriði Guðbrands Vigfússonar eru fábreytt þegar á heild þeirra er litið.
Hann fæddist í Galtardal í Staðarfellssókn 13. mars 1827, sonur Vigfúsar
Gíslasonar og Halldóru Gísladóttur konu hans. Lærdómsfýsnina er að finna
í báðum ættum. Vigfús bóndi var sonur Gísla stúdents Vigfússonar, sýslu-
manns í Þingeyjarsýslu, og gengur sá karlleggur aftur um Þorkel bróður Guð-
brands biskups Þorlákssonar. Gísli stúdent var bróðir Guðbrands lyfsala í
Nesi við Seltjörn, en hann lést ókvæntur og barnlaus. Katrín systir þeirra lét
þá Guðbrand litla njóta nafns, gaf honum fóstur og tóku þau svo ástfóstri
hvort við annað; þreyttist Guðbrandur aldrei á að viðurkenna skuld þá sem
hann stóð í við afasystur sína, og bera þess jafnöflugt vitni frásögn hans sem
hann sagði York Powell seint á ævinni og York Powell birti í umsögn sinni um
Guðbrand látinn í The Academy, og skringilegt bréf sem Guðbrandur var að
burðast við að skrifa henni þegar hann var níu vetra, og ílentist í einni bók
hans síð.armeir þangað til að sá sem þetta ritar fann það og sýndi Gabriel Tur-
ville-Petre prófessor. Var það og fyrir hennar tilstoð að Guðbrandur var sett-
ur til mennta.
Ekki skorti heldur lærða menn í móðurætt Guðbrands. Halldóra móðir
hans var dóttir sr. Gísla Ólafssonar, Skálholtsbiskups Gíslasonar. Bróðir
hennar, sr. Eyjólfur Gíslason, var að sönnu pokaprestur og eyðslukló, en
hann giftist Guðrúnu dóttur sr. Jóns Þorlákssonar þjóðskálds á Bægisá, og
synir þeirra, sr. Jón Eyjólfsson á Stað í Aðalvík og sr. Þorkell Eyjólfsson, síð-
ast prestur á Staðastað, nutu andlegs móðurarfs. Þegar tími kom til þess að
Guðbrandur skyldi læra undir skóla að gamla siðnum, þá var leitað til Þorkels
að taka hann að sér. Þorkell brást vel við því: hvort tveggja var og að hann var
orðlagður kennari í undirstöðuatriðum latneskrar tungu og Guðbrandur var