Andvari - 01.01.1989, Side 176
174
BENEDIKT S. BENEDIKZ
ANDVARI
mun koma það á óvart að Konráð hlaut að eiga við marga erfiðleika - ekki síst
þann að hversu mikill meistari sem hann var á íslenska tungu (og því neitar
enginn að á sínum tíma var hann mestur málfræðingur hennar), þá var hann
alls ekki svo kunnugur enskri tungu að hann gæti greitt úr flækjum orðanotk-
unar og orðaskilnings á ensku með þeirri nákvæmni sem enskumælandi fræði-
maður hefði getað miðlað honum. Þar á ofan, hefðu erfingjar Cleasbys kynnst
vinnuaðferðum Konráðs eins og þeim er lýst í Dægradvöl Gröndals, þá hefði
þeim fljótlega skilist að þær voru ekki ætlaðar til hraðra skila á verkefninu!
Enda fór svo á endanum að erfingjunum leiddist þófið og þeir hugsuðu til þess
að fá sér nýjan og afkastameiri orðabókarstjóra, og sendu mann út af örkinni
til Hafnar til þess að finna hann meðal íslendinga þar.
Sendiboðinn var blaðamaður hjá The Times, George Webbe Dasent að
nafni. Ekki er sá sem þetta ritar í nokkrum vafa um það að verri sendingu
gátu forlögin varla sent Guðbrandi Vigfússyni. Dasent var maður sem hafði
hlotið góða almenna menntun (á Westminster skóla og Magdalen Hall,
Oxford), heimsmaður mikill og yfirborðslegur, gjarn að blaðamanna sið að
sletta sér út í stór fyrirtæki en (með einni heiðarlegri undantekningu) lítt gjarn
að uppfylla loforð sín þegar á herti. Má lesa um hann í fyrirlestri þeim sem
prófessor David Knowles hélt um bresku fornritaútgáfuna The Rolls Series
sem forsetaembættisskyldu sína í The Royal Historical Society og gaf út síðar
í bók sinni Four Historical Enterprises, og ætla ég engu að bæta þar við.
Ekki verður annað séð af bréfaskiptum þeim sem til eru en að Dasent bæði
tældi Guðbrand til Englands og ætlaði sér svo að hafa hinn stórvirka vísinda-
mann sem skósvein sinn í norrænum málefnum þar. Að honum brást bogalist-
in var af því að hann reyndist lítill mannþekkjandi, og má sjá það á bréfum
þeim sem varðveist hafa til Guðbrands þar sem hann reynir að steyta sig fyrst,
en hefur sýnilega fengið svör sem sýndu honum að Guðbrandur var frekar sá
maður sem „sjálfur á sitt eigið lík/ og síst er annars senditík“. Hvað kom
Guðbrandi til að taka á sig ferðina til Englands er erfiðara viðfangsefni, því
þar skortir nú algerlega skrifaðar heimildir. Þegar hér var komið var Guð-
brandur þrjátíu og sjö ára gamall. Hann var einstæðingur - á alla vegu - ég
hef engan fundið sem hann átti sem þann trúnaðarvin er hann gæti ráðgast við
í erfiðum málefnum. Án efa hefur óvinátta hans og Konráðs átt sinn hlut í
endanlegri ákvörðun hans, því nú gæti hann sýnt að hann væri fær til þess að
ljúka því verki sem Konráði var að verða ofviða. Samt er einn þráður annar
í ævivoð Guðbrands sem varla hefir verið nefndur af öðrum, þó að Finnur Sig-
mundsson landsbókavörður kæmi þar nærri er hann ritaði um Guðbrand í
bréfasafni því er hann gaf út undir nafninu Úrfórum Jóns Árnasonar, en það
eru ástamál Guðbrands.