Andvari - 01.01.1989, Síða 193
ANDVARI
SÁLMABÓKIN 1886
191
í júlí 1884 kemur nefndin saman á stuttan fund í Reykjavík. Sr. Björn Hall-
dórsson er þá fallinn í valinn, dó í des. 1882. Á þeim fundi er þeim Helga og
Stefáni falið að ganga frá bókinni, og enginn fundur haldinn upp frá því nema
hvað þeir tveir hittast við og við og bera saman bækur sínar.
Um það leyti sem dr. Jón Helgason lét af biskupsdómi lagði hann inn á hand-
ritadeild Landsbókasafnsins öll þau bréf til föður síns, Helga Hálfdánarsonar,
er vörðuðu starf sálmabókanefndar 1878-1986. (Lbs. 2844-2845, 4to) Lang-
flest eru bréfin frá Stefáni, Birni og Valdimar, en þó er líka að finna fimm
bréf frá Páli og eitt frá Matthíasi. í mörgum bréfanna dvelja ritarar við einka-
hagi sína, afkomu, heilsufar og veðráttu, eins og vænta má. Þó er þar meira
og minna að finna um sálmakveðskap, niðurfellingu eldri sálma frá fyrri
sálmabók og upptöku nýrra.
Bréf Björns Halldórssonar eru níu. Pað kemur glöggt fram í þeim hvað
hann er mikill málvöndunarmaður. Sr. Björn er stundum gagnrýninn. Hann
finnur t. d. að málinu á barnalærdómskveri Helga. í einu bréfinu víkur hann
að Matthíasi og segir: „Jafnvel þó ég viti, að sr. Matthías, ef hann leggur sig
til og nær laginu á þeim kveðskap, verður miklu snjallara sálmaskáld en þér
og hver af oss.“ Hann leggur fram breytingartillögur við þýðingu Helga á
„Vor Guð er borg á bjargi traust,“ eins og „hver óvin Guðs skal óþökk fá.“
Því vill hann breyta. Við fleiri sálma Helga gerði hann athugasemdir.
Bréf Páls Jónssonar eru fimm sem áður gat. Um það leyti sem nefndin tók
til starfa fluttist hann frá Völlum í Svarfaðardal að Viðvík í Skagafirði, þar
sem hann lést 1889. Pegar hér er komið sögu er sr. Páll orðinn heilsuveill og
býr við kröpp kjör. í einu bréfinu kvartar hann um sjóndepru og svima. Ekki
er hann öfundsverður af aðbúðinni í Viðvík. Pað má segja að heyra megi
stunur hans í hverju bréfi. Hann segir: „Hér er svo illt aðstöðu, að ég get
sjaldan skrifað staf, nema standa upp við þil. Svo mikil eru heimilisþrengslin.“
Helgi hefur sennilega brýnt Pál að koma á sálmabókarfund. En hann færist
alveg undan því og segir: „Ég hef ekki komið til Reykjavíkur í 33 ár.“ Lítið
gerði Páll að því að gagnrýna sálma annarra, enda maður hógvær og af hjarta
lítillátur. Pó vill hann breyta einni línu í sálmi Helga. „Lærdómstími ævin er.“
Helgi segir: „Gef ég sannleiks gulli safni /gef í visku og náð ég dafni.“ Páll
leggur til: „Gef ég auðlegð sannleiks safni,/svo í visku og náð ég dafni.“
Aðeins eitt bréf er í safni Helga frá Matthíasi. Pað er ritað í Odda 17. okt.
1884. Pangað flutti hann vorið 1881, en hafði fengið veitingu fyrir staðnum
síðla árs 1880. Árin sem sr. Matthías sat í sálmabókarnefndinni voru honum
erfið á margan hátt. Kom þar til búferlaflutningur, búskapur á stórri jörð og
fornu höfðingjasetri og fjárhagur þröngur sem fyrr og síðar. Hann á í sálar-
stríði og trúarlegar efasemdir sækja á hann, eins og hann drepur á í Söguköfl-
um sínum.