Andvari - 01.01.1989, Síða 197
ANDVARI
SÁLMABÓKIN 1886
195
lög, við sálmana „í dag er glatt“ (tekið úr Töfraflautunni, óperu eftir Mozart),
„Við freistingum gæt þín“ og „í fornöld á jörðu“.
Eftir útkomu bókarinnar 1886 ritar Stefán enn Helga bréf og gætir þar
nokkurrar þykkju, en þá hafði Helgi lagt síðustu hönd að verki: „Ég hef eng-
an frumsaminn sálm sent.“ Nefnir hann þrjú númer sem Helgi telur frumsam-
in af honum. „Aftur á móti lofar þú mér einum (gagnstætt aftali okkar) að
eiga útlegginguna af Jesú minning“ [þ.e. Þín minning Jesú mjög sæt er]... Þú
átt þó ein tvö vers í sálminum, án þess ég eigi eitt orð í þeim versum, og þar
að auki nokkrar orðabreytingar, og loksins er mínu nafni sleppt við alla þá
sálma úr bókinni 1871, sem þar koma meira og minna breyttir af mér og sem
ég þá var neyddur til að setja nafn mitt við, og skil ég reyndar ekki hvað ég
er réttlægri að minnsta kosti með suma af þeim sálmum en þeir sem í bókinni
(1886) eiga nöfn sín við.“ Hér á bréfritari við þá Helga og Valdimar, þar sem
líkt stóð á um lagfæringar og hann tilgreinir um þessa sálma.
Það er komið fram í aprílmánuð 1886 og bókin fullprentuð. Dr. Pétur
biskup sendir 14. þess mánaðar landshöfðingja eintak ásamt bréfi, ber lof á
bókina og mælir með því að hún verði þegar tekin upp við guðsþjónustur.
Upp úr þessu fer hún að berast út um landið.
Nokkrir ritdómar birtust um sálmabókina í blöðum og tímaritum, bæði lof
og last eins og gengur. Sr. Jón Bjarnason í Winnipeg á einn dóminn sem birt-
ist í riti hans Sameiningunni. Dómurinn er lofsamlegur og telur Jón nýju bók-
ina taka eldri bókum langt fram. Hann lætur þó í ljós vanþóknun sína á brott-
falli einstakra eldri sálma.
Annar dómur kom fram vestanhafs 18. sept. 1886 í Heimskringlu, eftir rit-
stjórann, Einar Hjörleifsson (Kvaran) skáld. Hann var einn af Verðandi-
mönnum og stóð þá nærri Georg Brandes, sem var andvígur kirkju og kristin-
dómi. Einar hafði verið við nám í Kaupmannahöfn undanfarin ár. Sennilega
hefur það verið frekar áhugi Einars á skáldskap en afskiptaþörf af málum
kirkjunnar sem hleypti honum af stað.
Dómurinn er bæði jákvæður og neikvæður. Einar hrósar sálmum Valdimars
og Matthíasar. Hann dæmir þó einn sálm Valdimars óvægilega. -Eftir að Ein-
ar hefur gagnrýnt bókina hart gerir hann bragarbót og kemst þannig að orði:
„... ekki svo að skilja, sem ég vilji lasta þessa sálmabók. Það er ekki nóg
með það að hún er sú langbesta sálmabók, sem íslendingar hafa nokkurn tíma
sungið úr. Hún er meira að segja snöggtum betri en menn strangt tekið gátu
vænst eftir ..." En svo bætir hann við: „Hún er ópersónuleg og köld ... það er
ekki skáldskapur í þessari bók nema eftir tvo menn. Skáld bókarinnar eru
Valdimar Briem og Matthías Jochumsson. Allt sem eftir aðra menn stendur
í þessari bók er rímaðar hugvekjur og ræður, upp og niður að gæðum, sumar
laglegar, sumar heldur slakar.“ Þannig slær gagnrýnandinn nokkuð úr og í. -