Andvari - 01.01.1989, Síða 210
208
HANNES JÓNSSON
ANDVARI
rekstrar til íslands sem ögrun við Breta. Stjórnin taldi, að hlutleysisstefna ís-
lands bannaði að Þjóðverjum en ekki Bretum væru veitt réttindi til að fljúga
til og frá íslandi.
Sömu viðhorf réðu gerðum ríkisstjórnarinnar þegar þýski kafbáturinn U-30
sigldi inn á ytri höfnina í Reykjavík 19. september 1939 og fékk að setja einn
særðan sjóliða á land. Gerlach, aðalræðismaður Þjóðverja í Reykjavík, hafði
verið prófessor í læknisfræði og gerði hann að sárum tveggja minna særðra
sjóliða í tollbátnum, sem fór með þá aftur út í kafbátinn án þess að þeir stigju
á land. Kafbáturinn sigldi tafarlaust út aftur, en sjóliðinn, sem þurfti á sjúkra-
húsvist að halda, var kyrrsettur til stríðsloka.
Fáum dögum síðar, eða 26. september 1939, neyddist flugbátur breska flug-
hersins, sem verið hafði í könnunarflugi austan- og norðaustan lands, til þess
að lenda á sjónum framan við Raufarhöfn. Hélt flugforinginn, Leonard Kelly
Barnes, því fram „að flugbáturinn hefði sama rétt til að nauðlenda í íslenskri
lögsögu og herskip að leita vars“8\
Ríkisstjórnin var annarrar skoðunar og vildi kyrrsetja flugbátinn og áhöfn
hans til stríðsloka samkvæmt ströngustu hlutleysisreglum. En Barnes flugliðs-
foringi vildi ekki sætta sig við þetta. Tókst honum að komast undan með
áhöfn sína í vélinni. Krafðist íslenska ríkisstjórnin þess af Bretum, að Barnes
flugliðsforingja yrði skilað aftur til kyrrsetningar á íslandi til stríðsloka. Bret-
ar urðu við þessari kröfu. Kom Barnes til íslands nýgiftur með konu sína ein-
um og hálfum mánuði eftir flóttann. Var hann hafður í stofufangelsi að Bessa-
stöðum fyrst um sinn.
íslenska ríkisstjórnin reyndi þannig að sýna báðum stríðsaðilum óhlut-
drægni og láta eitt yfir báða ganga. Var þetta í fullu samræmi við hlutleysis-
reglur Haag-sáttmálans frá 1907.
Á grundvelli hlutleysisreglna vildi íslenska ríkisstjórnin að íslenskir aðilar
fengju að halda viðskiptum áfram bæði við Bretland og Pýskaland. Fyrstu
mánuði stríðsins tókst þetta. Þannig afgreiddu íslenskir kaupsýslumenn og
firmu ýmsar landbúnaðarvörur og sjávarafurðir til Þýskalands í október og
nóvember 1939 þrátt fyrir yfirlýst hafnbann Breta á Þýskaland.
Bretum geðjaðist ekki að þessu uppátæki íslendinga. Þeir mótmæltu við-
skiptum íslands við Þýskaland harðlega í viðskiptaviðræðum, sem hófust 28.
september 1939 í London undir forystu Sveins Björnssonar sendiherra. Bretar
kröfðust þess, að íslendingar hættu allri sölu neysluvöru til Þýskalands. ís-
lenska viðskiptanefndin hélt því hins vegar fram, að sem hlutlaust ríki hefði
ísland rétt til þess að versla við báða stríðsaðila. Bretar svöruðu, að þeir
myndu ekki gera neinn viðskiptasamning við íslendinga nema því aðeins, að
þeir hættu öllum viðskiptum við Þýskaland. Þáverandi utanríkisráðherra
Breta, Halifax lávarður, lýsti því yfir við formann íslensku viðskiptanefndar-
innar, Svein Björnsson, að hann skildi afstöðu íslendinga, en tók fram, að