Andvari - 01.01.1989, Page 218
216
HANNES JÓNSSON
ANDVARI
Bollaleggingar Þjóðverja um Icarus-áætlunina gefa þó til kynna, að breska
innrásin og hernámið 10. maí 1940 hafi líklega komið í veg fyrir þýska innrás
í landið. Ljóst er, að ef til þýskrar innrásar hefði komið, hefðu afleiðingarnar
orðið mjög harðir bardagar umhverfis og á íslandi. Bæði Bretar og Banda-
ríkjamenn mundu hafa litið svo á, að þeirra eigin öryggi væri ögrað með
þýsku hernámi og setuliði á íslandi. Mundu þeir hafa fórnað miklu til að ná
íslandi aftur.
Dvínandi hlutleysi Bandaríkjanna
Það er athyglisvert, að á sama tíma og breskir og bandarískir herforingjar
voru að semja „ABC-1“ áætlunina um, að Bandaríkin yfirtækju varnir íslands
af Bretum, voru Bandaríkin enn að forminu til hlutlaus í stríðinu. Það var
ekki fyrr en eftir 7. desember 1941, þegar Japanir gerðu sína illræmdu árás á
Pearl Harbor, að Bandaríkjamenn lýstu yfir stríði á hendur Þjóðverjum,
ítölum og Japönum.
En Bandaríkin höfðu í raun þegar tekið afstöðu með lýðræðisríkjunum í
stríðinu við stríðsvél Hitlers. Má nefna margar staðreyndir þessu til sönnunar.
Eftir fall Noregs, Belgíu, Hollands og Frakklands fyrir leifturárásum Þjóð-
verja, en þeir murkuðu niður alls óviðbúna borgara ekki síður en hermenn,
óx stöðugt áhugi Bandaríkjanna á að aðstoða lýðræðisríkin í baráttunni við
Möndulveldin. í september 1940 afhentu Bandaríkin Bretum t. d. 50 „eldri“
tundurspilla í skiptum fyrir leigu á landi undir 49 flota- og flugstöðvar í Ný-
fundnalandi, á Bermudaeyjum, Bahamaeyjum, Jamaica, St. Lucia, Trinidad
og Antigua og í Bresku Guyana. Franklin D. Roosevelt forseti mælti með því
í boðskap sínum til 77. Bandaríkjaþingsins í janúar 1941, að Bandaríkin yrðu
„vopnabúr lýðræðisins". Hinn 11. mars 1941 afgreiddi þingið láns- og leigu-
kjaralögin, sem veittu forsetanum vald til þess í þágu varnar- og öryggismála
Bandaríkjanna, að sjá óvinum Hitlers Þýskalands fyrir margvíslegum vopnum
og tækjum til stríðsrekstursins.
Hinn 18. febrúar 1941 fól Roosevelt sendimanni sínum, Averell Harriman,
að fara sem sérstakur fulltrúi sinn til Bretlands „og mæla með hverju því sem
við getum gert án þess að fara í stríð, til þess að halda Bretum á floti“. Harri-
man skyldi verða persónulegur fulltrúi forsetans hjá Winston
Churchill forsætisráðherra. Hann ætti að fást við allt, sem snerti stríðsrekstur-
inn, senda skýrslur sínar beint í Hvíta húsið og láta forsetann stöðugt vita,
hvaða varning mest aðkallandi væri fyrir Breta að fá frá Bandaríkjunum
vegna stríðsrekstursins24).
Enda þótt láns- og leigukjaralögin væru greinilega samin til þess að nýta
iðnframleiðslu Bandaríkjanna í þágu breska stríðsrekstursins, þá héldu