Andvari - 01.01.1999, Side 32
30
VÉSTEINN ÓLASON
ANDVARI
urinn sem verið er að lýsa einfaldist að marki eða glati fjölbreytileika
sínum. Viðfangsefnið er veruleikaskynjun alþýðunnar, mótuð af trú-
arhugmyndum eða hugmyndum um hið yfirnáttúrlega; vakin er at-
hygli á hvernig sífrjótt ímyndunarafl breytir reynslunni og lagar efni-
viðinn að frásagnarhefðum en lýtur þó sérstökum smekk og aðstæð-
um sögumanna. Sú varhygð sem goldin er við kenningum hvers
konar birtist meðal annars í því að jafnan er þess getið að skýringar
séu ekki algildar og bent á það sem er undantekning frá einhverri
reglu. Eitt er sprottið af þjóðtrú, annað hefur borist úr framandi
heimi og þó fengið þegnrétt, það þriðja kann að vera skáldskapur
einber. Það er erfitt að finna í þessu skemmtilega og fjölkunnuga riti
kafla sem réttmætt megi telja að velja úr sem einkar læsilega og eftir-
minnilega framar öðrum, en þó má etv. nefna lýsinguna á því sem
sérkennir íslensk ævintýri og lýsingar á útilegumannasögum og
huldufólkssögum.14 Annar lesandi mundi líklega staldra annars stað-
ar eða víðar við.
Hugmyndir Einars Ólafs um viðhorf fyrri alda manna til þjóð-
fræðaefnis eða annars kynjaefnis, þótt úr ritheimildum sé komið, eru
vitaskuld þær sömu í bókinni um þjóðsögur og fram koma í ritum
hans um bókmenntir fyrr og síðar. Þannig segir hann í Um íslenzkar
þjóðsögur, bls. 73:
Þegar líða tekur á 13. öldina, er sem íslenzkir sagnaritarar hætti að geta sætt
sig við veruleikann eins og hann er, og gerast þeir nú talhlýðnari þeim rödd-
um í sínum brjóstum og annara, sem krefjast huggunarríkari efna. í forn-
sögunum hafði frá upphafi komið fram hneigð til skemmtunar, og verður
hún nú yfirsterkari. Ýkjusagnasmekkur alþýðunnar fær nú ekki slíka mót-
stöðu sem áður, enda hafa rit kirkjunnar manna frá upphafi haft að færa
yfirnáttúrleg efni, og nú koma riddarasögurnar til viðbótar, fullar af staðlaus-
um kynjum og ævintýrum.
Ummæli þessa efnis hafa stundum verið skilin á þann veg af þeim
sem ekki þekkja nógu vel ævistarf Einars Ólafs að hann hafi gert lít-
ið úr því efni sem hér er til umræðu og jafnvel ekki skeytt mjög um
það.15 Það er þó fjarri sanni. Eins og hér hefur þegar komið fram
lagði hann mikla rækt við hvers kyns þjóðfræðaefni, og rannsóknir á
fornaldar- og riddarasögum voru honum ætíð hugleiknar, eins og sjá
má aílt frá Verzeichnis til síðustu rita hans. Þótt hann fjallaði minna
um kristileg trúarrit en veraldlegar bókmenntir, fór því einnig fjarri
að hann vanmæti gildi þeirra. Auk þeirra rita sem þegar hefur verið