Andvari - 01.01.1999, Page 62
60
VÉSTEINN ÓLASON
ANDVARI
eins og hjá Jónasi. Trúartilfinning hins leitandi efahyggjumanns er
skáldlega fram sett í stuttu kvæði sem nefnist „Ljósbrot“:
Milli þess sem er til og þess sem ekki er,
milli augans sjónar og glampandi tálsýnar hugans
er hyldjúpt gímald, en hvort þeirra varpar þó geislum
handan um gjána, ljós sem fer inn um glerjung;
en þetta misræma Ijósvarp gerir þó lífið líft (Ljóð, 53).
í ræðunni á sjötugsafmæli sínu sagði Einar Ólafur: „Af því að í
kvæðum mínum er oft vikið að dauðanum vil ég segja: ég hef aldrei á
ævinni óttast dauðann, ekki heldur leitað huggunar gagnvart hon-
um.“ í þessari sömu ræðu lét hann í ljós þá ósk að honum auðnaðist
að halda áfram að skrifa ritið um íslenskar bókmenntir í fornöld, svo
sem heilsa og líf entist til. Þegar til kastanna kom varð ekki af þessu.
Honum auðnaðist á áttræðisaldri að ganga frá og koma á prent
minni verkum sem að mestu voru reist á grundvelli sem hann hafði
lagt fyrr á árum, en íslenzkar bókmenntir í fornöld II sáu ekki dags-
ins ljós. Þó hélt Einar Ólafur bærilegri heilsu fram eftir áttunda ára-
tugnum og fylgdist af áhuga með störfum þeirra sem höfðu tekið við
af honum, en þá tók heilsu þeirra hjóna mjög að hraka. Kristjana
andaðist 19. okt. 1981, en þá höfðu líkamlegir og andlegir kraftar Ein-
ars Ólafs gengið mjög til þurrðar, og síðustu árin lifði hann í eigin
heimi. Hann andaðist 18. apríl 1984 og var jarðsettur við hlið konu
sinnar í kirkjugarðinum við Suðurgötu.
Þegar litið er yfir ævi Einars Ólafs Sveinssonar og ævistarf, er það
vinnuþrekið, eljan og sá skapstyrkur sem undir býr, sem mesta undr-
un og athygli vekur, ásamt jafnvægi milli rósemdar hugans og næmr-
ar tilfinningar fyrir hinu fagra og stórkostlega. Lífsatvik hans far-
sældust af því mótlæti sem hann varð að þola, og alla ævi naut hann
gæfu af sínum nánustu. Etv. bjó þetta allt sem kím í fjögra ára dreng
sem undi sér einn með alheiminum á Höfðabrekkuhálsi sumardag
nokkurn í byrjun þeirrar aldar sem nú er senn á enda runnin.33