Andvari - 01.01.1999, Síða 88
86
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
ANDVARI
veturinn 1922, en ári síðar gaf hann flokkinn út í bókarkorni undir nafninu
Komandi ár.16 „Tilgangur bókarinnar er sá“, skrifar Jónas í formála, „að
draga ljósar merkjalínur milli stjórnmálaflokkanna hér á landi og skýra þá
um leið stefnumörk aðalflokkanna.“17 Framtíð íslensks flokkakerfis sá
hann í þremur stjórnmálaflokkum, „af því að ekki eru nema þrjár fjármála-
stefnur, sem áhrif hafa á skoðanir íslendinga: samkeppnin, samvinnan og
sameignin.“ Grundvöllur Framsóknarflokksins var að mati Jónasar fyrst og
fremst samvinnuhugsjónin, en í henni sá hann annað og miklu meira en
rekstrarform verslunarfyrirtækja - samvinnuhugsjónin var fremur „sérstök
heimsskoðun“, sagði hann, eða jafnvel „fagnaðarerindi“, sem tók við af
aldalangri en árangurslausri baráttu kirkjunnar við slæmar afleiðingar sam-
keppnisandans.18
Vel má taka undir þann dóm Guðjóns Friðrikssonar í ævisögu Jónasar
frá Hriflu að hugmyndir greinaflokksins Komandi ár séu „með nokkuð
útópísku sniði“, um leið og hann sé „fullur af skáldlegum líkingum og eld-
móði“.19 í bókaflokknum koma þó fram stjórnmálahugmyndir Jónasar með
hvað skýrustum hætti, fullmótaðar og byggðar á áralangri skoðun og íhug-
unum. Grunnur kenninga Jónasar var hugmyndin um sögulegt mikilvægi
samvinnuhreyfingarinnar sem einu vörn borgaralegs samfélags gegn ör-
eigabyltingu annars vegar og óhjákvæmilegri úrkynjun kapítalískra valda-
stétta hins vegar. Frá upphafi vega hafði þróun mannlegs samfélags fylgt
ákveðnum lögmálum, fullyrti hann, þar sem „lítill minni hluti þeirra, sem
sigruðu í samkeppninni á hverri öld, [hefur] kúgað og misbeitt valdi við
fjölmennan meiri hluta.“ Fyrstu samfélög manna mynduðust í baráttunni
um fæðuna og takmarkaðar náttúruauðlindir, en þar lögðu sigurvegarar í
samkeppninni sér hina sigruðu til munns í bókstaflegri merkingu. Af sam-
félögum mannætna og annarra „villimanna“ tók síðan við skeið þrælahalds,
en það „var söguleg nauðsyn í framþróun mannsins, á leiðinni úr dýrs-
hamnum“, eða eins konar „vinnuskóli mannkynsins“. Næsta þrep í þessari
þróunarsögu mannsins á leið sinni til nútímans var lénskerfið, en það kom
fram þegar sigurvegarar í samkeppninni gerðu sér grein fyrir því að „frjáls-
ir“ menn vinna betur en þrælar, þótt í raun væru lénskir bændur litlu frjáls-
ari en þrælarnir áður. Fjórða þróunarstigið, iðnaðarstigið, hófst svo á átj-
ándu öld með nýtingu gufuafls og véla, en við það missti aðallinn forystu
sína í efnahagslífinu til iðnaðarforkólfa og kaupmanna. Með því fluttist
þungamiðja atvinnulífsins til bæjanna, en í iðnaðarsamfélaginu tók fámenn
klíka iðnrekenda og kaupmanna „bróðurpartinn af andvirði þess sem gufu-
vélarnar og hinn fjölmenni öreigalýður framleiddi.“20
Hreyfiafl sögunnar hefur alla tíð verið máttur hins sterka, fullyrðir Jónas,
en einnig reglubundin úrkynjun yfirstéttar hvers tíma. „Pað þarf sterk bein
til að þola góða daga“, skrifar hann, og „með valdinu fylgir löngum auður,